Dýrustu milljarðar Íslandssögunnar

Icesave reikningur Landsbankans
Icesave reikningur Landsbankans Retuers

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fullyrti við fyrstu umræðu um ríkisábyrgð vegna Icesave samningana, að milljarðarnir ellefu sem fengust fyrir Landsbankann á sínum tíma séu dýrustu milljarðar Íslandssögunnar.

Steingrímur fór yfir forsögu málsins og benti á að Landsbankinn hefði safnað inn á innlánsreikninga í nágrannalöndunum í gegnum útibú, en ekki dótturfélög. „Það eitt og sér hefði gjörbreytt málinu ef Landsbankinn hefði notað sér dótturfélagið í Bretlandi,“ sagði Steingrímur og bætti við að enginn munur væri á þeim útibúum og útibúinu í Breiðholti.

„Bankarnir sjálfir, m.a. með auglýsingum, fullvissuðu viðskiptavinina að ekkert væri að óttast, og íslensk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama, s.s. með bréfaskriftum og kynningarfundum.“

Ráðherrann sagði að síðustu mánuðirnir fyrir bankahrunið hefðu verið íslensku þjóðarbúi dýrkeyptir enda hafi Landsbankinn hafið Icesave starfsemi sína í Hollandi í maímánuði á síðasta ári. Ríflega einn milljarður evra hefði safnast inn á reikninga á þeim tíma.

Steingrímur hefur ekki lokið framsöguræðu sinni en á mælendaskrá eru þegar komnir 24 þingmenn. Ljóst þykir að umræðan muni halda áfram fram á kvöld og nótt.

Öll gögn er varða samninga Íslands við Bretland og Holland vegna ábyrgða á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands eru aðgengileg á upplýsingavef stjórnvalda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert