Ögmundur ekki ákveðinn

Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.
Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir á Alþingi. Ómar Óskarsson

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, er ekki viss um hvort hann styðji frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave. Hann segist hafa heitið því að taka ekki afdrifaríkar ákvarðanir án þess að skilja hvað liggur að baki. Hann segist ætla að fylgjast með aðkomu stjórnarandstöðunnar í málinu og láta afstöðu sína ráðast því hvernig málinu farnast.

„Hvernig [frumvarpinu] reiðir af veltur á ýmsu; hvort þingið sannfærist um að þetta sé illskásti kosturinn í stöðunni, um að við höfum getu til að standa við þessar skuldbindingar og, þar ætla ég að tala fyrir sjálfan mig, hvernig þingið í stjórn og stjórnarandstöðu kemur að þessu máli,“ sagði Ögmundur sem fékk algjört hljóð á meðan hann talaði, ólíkt svo mörgum öðrum stjórnarþingmönnum. Í kjölfarið þökkuðu þingmenn úr stjórnarandstöðunni sem komu upp í andsvör ráðherranum fyrir ræðuna.

Ögmundur sagði þetta mál öðruvísi en önnur sem koma fyrir þingið. „Það má ekki hafna í hefðbundnum hjólbörum flokkastjórnmála. Þetta er mál sem við eigum að taka á óháð flokkalínum.“

Hann sagði sameiginlegan vilja allra að standa við skuldbindingar þjóðarinnar, og sagðist hafa fyrir því sannfæringu að allir sæu hversu fáránlegt væri að láta litla þjóð greiða skuldir sem þessar ef innlánsreikningar Icesave hefðu verið fimm milljónir en ekki 300 þúsund. Hann spurði hvar línan liggi í málinu.  „Á þetta viljum við láta reyna, og ég vil enn. Hverjar eru þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert