Frumvarp um sérstakan ríkissaksóknara fyrir þingið

Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Eva Joly og Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar

Fyrsta umræða um frumvarp dómsmálaráðherra um að nýtt embætti sérstaks ríkissaksóknara verði stofnað, auk þriggja sjálfstæðra saksóknara hefst á Alþingi í dag. Sérstakur ríkissaksóknari mun starfa við hlið sitjandi ríkissaksóknara, og sinna málum sem snúa að rannsókn bankahrunsins.

Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari hefur sagt sig frá þeim málum sem tengjast bankahruninu en sonur Valtýs er annar forstjóra Exista, sem var stærsti hluthafi í Kaupþingi hf. og fleiri félögum.

Frumvarpi dómsmálaráðherra er ætlað að stórefla embætti sérstaks saksóknara, í samræmi við ábendingar Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara.

Embætti sérstaks saksóknara tók til starfa í febrúar á þessu ári. Nokkur reynsla hefur fengist af starfsemi þessa nýja embættis og sýnir hún að stöðugt verður að hyggja að því hvort embættið þurfi rýmri heimildir eða styrkari umgjörð. Í mars sl. voru gerðar á lögunum nokkrar breytingar sem miðuðu að því að skýra og rýmka heimildir embættisins til að afla upplýsinga og gagna. Auk þess ákvað ríkisstjórnin að stórauka fjárveitingar til embættisins, að þær yrðu 275 milljónir króna á ári í stað þeirra 76 milljóna sem upphaflega var gert ráð fyrir. Gert var ráð fyrir að um 20 starfsmenn, þar með taldir erlendir sérfræðingar, kæmu að rannsókninni.

Samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra verða fjárveitingar til embættisins auknar um 43 milljónir króna á ársgrundvelli, aðallega vegna launakostnaðar, og að hækkun útgjalda á þessu ári verði um helmingur þeirrar fjárhæðar. Ekki var gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum ársins 2009.

Sérstakur ríkissaksóknari verður stjórnsýslustigi ofar en Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari. Málum verður áfram vísað til Ólafs, og í framhaldi til hinna þriggja sjálfstæðu saksóknara sem munu stýra sinni rannsókn hver fyrir sig.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra er að auki lagt til að lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða verði breytt þannig að tilkynningar frá rannsóknarnefndinni um grun um refsiverða háttsemi eða hvort ekki eigi að ákæra þann sem býður nefndinni upplýsingar, berist til sérstaks ríkissaksóknara í stað ríkissaksóknara eins og nú er.

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina