Undirbúa lögsókn gegn Íslandi

Tæplega tvö hundruð hollenskir Icesave-innistæðueigendur undirbúa nú lögsókn gegn Íslandi. Segir í tilkynningu frá hópnum að ný skýrsla hollenskra stjórnvalda staðfesti að ábyrgðin vegna Icesave sé að fullu hjá íslenska fjármálaeftirlitinu.


Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að hollenski seðlabankinn hafi reynt að koma í veg fyrir frekari stækkun Icesave en bankinn hafi fengið misvísandi skilaboð og hafi verið virtur að vettugi þegar bankinn reyndi að að koma skikki á hlutina.

Auk þess sem einstaklingar telji að þeim sé mismunað en íslenskir sparifjáreigendur hafi fengið fjármuni sína greidda út af nýja Landsbankanum ólíkt þeim hollensku þrátt fyrir að þeir séu allir viðskiptavinir sama bankans.  Um sé að ræða brot á alþjóðlegum neytendarétti hollenskra sparifjáreigenda.

Gerard van Vliet, talsmaður hollensku sparifjáreigendanna, segir að innistæðieigendur séu að missa þolinmæðina.

Fyrir nokkrum vikum síðan hafi þeir rætt augliti til auglitis við forsætisráðherrann um að Íslendingar mismunuðu hollenskum sparifjáreigendum. Þrátt fyrir það hafi ekkert gerst í þessum málum og því sé hópurinn reiðubúinn til þess að fara með málið gegn Íslandi til EFTA og Evrópusambandsins. Uppkast af skjali þar að lútandi hafi verið sent til forsætisráðherra Íslands í síðustu viku.

Segja sparifjáreigendurnir að staðan sé óþolandi og eitthvað sem hægt hafi verið að komast hjá ef Ísland hefði tekið þátt í opnum umræðum um hversu alvarlegt ástand blasti við Íslandi snemma árs 2008.  Á sama tíma hafi Landsbankinn byrjað að bjóða upp á Icesave reikninga í Hollandi þrátt fyrir að opinberir aðilar á Íslandi hafi á þessum tíma vitað að þetta gæti endað með skelfingu.

Segist hópurinn í fréttatilkynningu hafa fullan stuðning hollenska þingsins í málinu enda séu þingmenn sammála því að Icesave-skelfingin sé á ábyrgð Íslands.

Vefur Icesave sparifjáreigenda í Hollandi

mbl.is