Stal bíl og hjólhýsi

mbl.is/Júlíus

Ungur karlmaður stal fólksbíl og hjólhýsi í Borgarnesi í gærkvöldi. Hjólhýsið fannst í nótt þar sem það hafði verið skilið eftir við Snorrastaði á Mýrum. Bíllinn fannst síðan við  fáfarinn veg nálægt Heydalsvegi illa farinn. Ökumaðurinn náðist og er grunaður um fíkniefnaakstur.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi virðist sem maðurinn hafi ekið greitt með hjólhýsið í eftirdragi. Eigendur þess voru nýkomnir úr ferðalagi og geymdu með matvæli og margt annað í hjólhýsinu. Við aksturinn hafði ísskápurinn m.a. opnast og innihald hans farið um allt.

Bíllinn er mikið skemmdur á undirvagni eftir að hafa verið ekið um torfærur. Þá höfðu rúður verið brotnar í bílnum. Ljóst er að tjónið á bílnum er mikið.

Ökumaðurinn var fluttur til Reykjavíkur þar sem hann gisti fangageymslur lögreglunnar. Hann verður væntanlega yfirheyrður í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina