Önnur umræða um ESB á morgun

Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis.
Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Ómar

Tillaga um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu var samþykkt til annarrar umræðu í þinginu af meirihluta utanríkismálanefndar í dag. Breyting var gerð á tillögunni þess efnis ríkisstjórnin skuli „fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Hagsmunir þessir eru útskýrðir í tillögugreininni og hnykkt á þeim. Helst eiga þeir við um sjávarauðlindir og landbúnað, auk annarra atriða.

Álitinu var dreift á Alþingi í dag og mun málið koma til annarrar umræðu á morgun. Atkvæðagreiðsla fer þá að öllum líkindum fram á mánudag.

Gangi tillagan í gegn mun þá Alþingi fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Haft var eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í fréttum Stöðvar 2 að hann vonaðist til að hægt væri að leggja umsókn inn til Evrópusambandsins fyrir lok næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert