Landsbankinn fær ekki eignirnar

Viðskiptunum við útibú Landsbankans í Lúxemborg er slegið upp á …
Viðskiptunum við útibú Landsbankans í Lúxemborg er slegið upp á forsíðu Round Town News.

Dómari í Denia á Spáni hefur úrskurðað að þrotabú Landsbankans í Lúxemborg geti ekki gengið að eignum viðskiptavina sem töpuðu fé í viðskiptum við bankann. Samtökin Landsbanki Victims Action Group væntir sömu dómsniðurstöðu í sambærilegum málum á Marbella og Mallorca.

Vísaði dómari málinu til réttar í Madrid en kom jafnframt í veg fyrir að hægt yrði að ganga að eignunum. Slíkt gæti valdið eigendunum „óbætanlegum skaða“.

Fjallað er um málið í dagblaðinu Round Town News á Costa Blanca og því slegið upp á forsíðu með mynd af anddyri Landsbankans í Austurstræti.

Segir þar að lögfræðingar spænsku lögmannastofunnar Martinez Echevarria Perez og Ferrero telji að hundruð lántakenda hafi verið sviknir í viðskiptunum og undirbúi nú að hefja málsókn gegn bankanum og ráðgjöfum hans sem hafi selt þjónustuna á röngum forsendum.

En í sem stystu máli gekk samningurinn út á að losa um fé sem bundið var í fasteignum viðskiptavina. Gátu þeir þannig fengið fjórðung áætlaðs verðmæti fasteignarinnar greiddan út í hönd, afgangurinn var færður í fjárfestingarsjóðinn Lex Life.

Fólkið hefur síðan farið afar illa út úr viðskiptunum, fasteignirnar hafa lækkað og sjóðurinn gufað upp.

Segir í Round Town News að viðskipti af þessu tagi hafi verið bönnuð í Bretlandi síðan 1990 en viðskiptavinir voru lokkaðir til þess að bæta lausafjárstöðuna með væntingum um að fjárfestingin í sjóðnum myndi standa straum af öllum útgjöldum og jafnvel útvega þeim aukatekjur.

Heldur lögfræðingurinn Santiago de la Cruz því fram að viðskiptin hafi verið svik þar sem fjárfestum hafi verið lofaður arður sem aldrei hafi verið hægt að standa undir.

John Hemus átti í viðskiptum við Landsbankann og kveðst hann fagna niðurstöðunni mjög, enda hafi samtökin nú öflugt vopn í baráttunni við bankann.

Frá Denia á Costa Blanca.
Frá Denia á Costa Blanca.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert