Engin ríkisábyrgð á Icesave

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri Ómar Óskarsson

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, segir það alveg ljóst að það sé engin ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans. Það sé grátlegt að sjá íslensk stjórnvöld gefast upp fyrirfram og reginmistökin hafi verið þau að telja sig skuldbundna til að greiða. Davíð útilokar ekki endurkomu í stjórnmálin. Þetta kom fram í þættinum Málefnin sem sýndur er á Skjá einum í kvöld í samstarfi við Morgunblaðið

Að sögn Davíðs, sem var forsætisráðherra á þeim tíma er Landsbankinn var seldur til Samsons-hópsins, kom  fram á sínum tíma á Alþingi að engin ríkisábyrgð fylgdi með í sölunni á Landsbankanum. 

Hann segir að varnarþing Íslands í þessu máli sé hér á landi og ekki sé spurning um að Ísland fari með málið fyrir dómsstóla heldur sé það þeirra sem telji að Ísland skuldi sér fé.  Það séu þeir sem sækja málið og þá væntanlega fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Aðspurður sagðist Davíð vona það að við færum þannig að ef staðan væri öðruvísi. Það er ef um breskan banka væri að ræða og að íslenska ríkið væri að sækja fé þangað. Þetta væru lýðræðisþjóðir ekki fótboltaleikur. 

Hann segir að það sé ljóst að Íslendingar muni greiða skuldbindingar sínar ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu beri að greiða skuldbindingar vegna Icesave. 

Davíð tók Lehman bræður fyrir sem ekki gátu greitt út það sem deCode átti inni hjá þeim og því hafi þurft að segja upp fullt af fólki. Ekki hefðu íslensk stjórnvöld farið í mál við þau bandarísku vegna þessa. 

Davíð var spurður að því í þættinum hvers vegna hann hafi skrifað undir samkomulagið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn ef því fylgdu skuldbindingar vegna Icesave en Davíð segir að það sé ekki sagt beint í samningnum að greiða þurfi fyrir Icesave.  Davíð staðfesti í viðtalinu að hann hafi bent fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á að hann réði ekki í húsakynnum Seðlabanka Íslands.

Davíð var spurður út í viðbrögð bankastjóra Landsbankans þegar hann sagði þeim að ekki kæmi til greina að þeir gerðu íslensku þjóðina gjaldþrota líkt og þeir væru á góðri leið með að gera við Björgólf Guðmundsson. Sagði Davíð að þeir hafi ekki tekið því  sérstaklega vel. Ljóst að þeir hafi túlkað það þannig að þeir hefðu ríkisábyrgð. Davíð segir að ef Bretar tryðu því að íslenska ríkið hafi alltaf borið ábyrgðina þá hefðu þeir ekki krafist þess að sett yrði ríkisábyrgð nú.

Staðfestir að gögnin séu til

Davíð staðfesti að gögn sem hann vísar til í viðtali við Morgunblaðið nýverið séu til. Þau séu væntanlega til hjá einhverjum ráðuneytum og rannsóknarnefndinni. Hann segir að birta eigi gögnin en það sé ekki hans að fá þau birt og vísaði þar til orða Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, um að hann væri ellilífeyrisþegi. Hann sagði að til væru upptökur af samtali við bankastjóra Englandsbanka sem ekki taldi að ríkisábyrgð væri á Icesave-reikningum Landsbankans.

Hann segir að margir verði hissa á því þegar í ljós kemur hversu snemma Seðlabanki Íslands varaði við hruninu. Hann segir að hann sé ekki undanskilin frekar en aðrir í því að bera einhverja ábyrgð. 

Davíð sagði að í júní í fyrra hafi komið í ljós að Landsbankamenn höfðu ekkert gert í því að færa Icesave reikningana í dótturfélag í Bretlandi líkt og rætt hafði verið á fundi þremur mánuðum áður. 

Vissi ekki um lán Samson í Búnaðarbankanum

Davíð sagði í viðtalinu að hann hefði ekki vitað til þess að eigendur Samson hefðu fengið hluta af kaupverði Landsbankans að láni í Búnaðarbankanum. Hann segir að þetta sé afskaplega dapurlegt. 

Aðspurður um hvar hann hafi geymt sína peninga þegar bankarnir hrundu sagði Davíð að þeir hafi verið í Landsbankanum og hann hafi tapað um fjórum milljónum króna.


mbl.is

Bloggað um fréttina