Ekki formleg umsögn Seðlabanka

„Þetta er ekki formlegt álit Seðlabankans á Icesave-samningunum. Það kemur skýrt fram í bréfi sem ég fékk frá yfirlögfræðingi Seðlabankans í gærkvöld að það beri ekki að líta á þetta sem umsögn Seðlabankans. Þá kemur fram að verið sé að klára vinnu við umsögn Seðlabankans um málið,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Hann segir málið lykta af pólitík og veltir fyrir sér hvort viðkomandi séu enn í vinnu hjá fyrrverandi seðlabankastjóra.

Bréfið sem Árni Þór fékk er undirritað af Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi Seðlabankans. Árni Þór segir að bréfið verði lagt fram á fundi utanríkismálanefndar Alþingis sem hófst fyrir stundu.

Greint var frá því í gær að lögfræðingar Seðlabankans gagnrýna Icesave-samningana harðlega í álit sem þeir kynntu þingnefndum, m.a. fjárlaganefnd Alþingis. Ekki hafi verið leitað til lögfræðinga bankans við samningsgerðina og hafi þeir því ekki áður gefið álit sitt, hvorki á ríkisábyrgðinni né Icesave samningum.

Svavar Gestsson, sendiherra og formaður samninganefndar um Icesave-reikninganna, lýsti í gær undrun sinni á lögfræðiálitinu og sagði það koma mjög á óvart. Seðlabankinn hafi haft sinn fulltrúa í nefndinni sem starfaði með henni allan tímann.

Fulltrúar Seðlabankans voru kallaðir á fund þingnefnda vegna Icesave-málsins, í krafti stöðu sinnar, en töluðu samkvæmt bréfi aðallögfræðings Seðlabankans sem einstaklingar.

„Ég er alveg stórundrandi á þessu. Þetta fólk er boðað hingað sem lögfræðingar Seðlabankans og þá væntir maður þess að það sé að tala í nafni sinnar stofnunar. Það gefur því auðvitað ákveðna vigt í sjálfu sér. Þau gagnrýna ýmislegt í þessum samningi en gagnrýnin verður að vera á réttum forsendum. Það má ekki villa á sér heimildir,“ segir Árni Þór Sigurðsson.

Hann segir málið lykta af pólitík.

„Er þetta ekki bara fólk sem er ennþá í vinnu hjá gamla seðlabankastjóranum? Maður veltir því fyrir sér,“ segir formaður utanríkismálanefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina