Svavar fullkomlega vanhæfur

Þór fullyrðir að íslenska samninganefndin hafi ekki skilið breska lagamálið …
Þór fullyrðir að íslenska samninganefndin hafi ekki skilið breska lagamálið þegar hún samdi við Breta um Icesave-samninginn. mbl.is/Ómar

„Svavar er búinn að koma þrisvar fyrir nefndina, fjárlaganefnd, og það er algjörlega greinilegt að hæfni hans er enginn,“ segir Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, í harðorðri gagnrýni á valið á Svavari til að leiða Icesave-samninga.

„Sendiherranum í Bretlandi var haldið algerlega utan við allt þetta ferli. Og hann er aðal diplómatinn sem hefði átt að vera í miðju málsins. Í staðinn var Svavar Gestsson gerður að formanni sendinefndarinnar. Hann er ekki maður sem að hefur nokkra burði til að taka þátt í svona samningaviðræðum. Svavar er búinn að koma þrisvar fyrir nefndina, fjárlaganefnd, og það er algjörlega greinilegt að hæfni hans er enginn.“

- Er það ekki svolítið djúpt í árinni tekið?

„Maður sér það bara á honum þegar að maður talar við hann að hann hefur ekkert í þetta að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það sem meira er að enginn samninganefndarmannanna, held ég.“

Meingallaður samningur

Þór vísar því næst til þess álits Elviru Mendez, sérfræðings í Evrópurétti við Háskóla Íslands, að Icesave-samningurinn sé meingallaður, líkt og hún hafi rökstutt í greinargerð til fulltrúa stjórnvalda. 

Hún líti svo á að samningurinn brjóti í bága við Evrópurétt.

„Elvira Mendez útskýrir það í greinargerðinni að breski hluti samningsins sé skrifaður á gömlu bresku lagamáli. Hann er skrifaður á öðru máli en sá hollenski. Hann er á skrifaður á gömlu bresku lagamáli sem enginn skilur nema breskir lögfræðingar.

Íslendingar sem eru komnir til að semja við breska ofurlögmenn eru að semja á tungumáli sem að þeir skilja einfaldlega ekki heldur. Þetta er svoleiðis mál. Þetta er klókustu samningamenn í heimi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því. Ég held að Íslendingar hafi bara ekkert við þá að gera eins og hefur komið í ljós.“

Sömdu á máli sem að þeir skildu ekki

- Ertu að gefa í skyn að íslenska samninganefndin hafi verið leidd eins og lömb til slátrunar?

„Já. Í gær komu á fund nefndarinnar Ragnar Hall og Eiríkur Tómasson og þeir eru að fara yfir orð í samningnum eins og eitt orðið sem að heitir subrogate.

Ég sjálfur er fæddur í Bandaríkjunum og er búinn að tala ensku frá fæðingu og er tvítyngdur og búinn að starfa erlendis í vel á annan áratug. Ég hef aldrei heyrt þetta orð fyrr eða séð það.

Þeir komu með orðabækur til þess að reyna að finna út úr því hvað þetta orð þýddi. Og þetta eru færustu lögfræðingar landsins sem eru vel mæltir á ensku. Málið er í einhverjum svona farvegi. Þetta er mjög skrítið og sérkennilegt að verða vitni að þessu,“ segir Þór Saari.

Merking subrogate

Tekið skal fram að hér er gengið út frá því að Þór hafi átt við orðið subrogate sem er þekkt í lagamáli.

Í ensk-íslensku orðabókinni með alfræðilegu ívafi er orðið þýtt svo: setja (einn) í annars stað.

Á wikipedia frjálsa alfræðiritinu er að finna þessa skilgreiningu á orðinu subrogation.

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar. mbl.is
Þór Saari segir greinilegt að hæfni Svavars Gestssonar til að …
Þór Saari segir greinilegt að hæfni Svavars Gestssonar til að leiða Icesave-samninginn sé enginn. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina