Skeiðará breytir um farveg

Jónas Kári Eiríksson

Skeiðará er allt að því horfin og ólíklegt er að hún myndist aftur. Áin rennur nú í Gígjukvísl. Annað Jökulsárlón er nú í uppsiglingu á sandinum. Hlaup í Skeiðará munu valda mikilli stækkun lónsins. Hvarfi árinnar hafði verið spáð.

Hægt er nú að ganga nánast þurrum fótum undir lengstu brú landsins, Skeiðarárbrú, en áin sjálf, Skeiðará, er nú allt að því horfin. Í stað þess að renna fram Skeiðarársand sameinast áin nú annarri á, Gígjukvísl.

„Þetta kemur mér ekki á óvart enda sá ég fyrir að svona myndi sennilega fara fyrir níu árum síðan,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur hjá Veðustofu Íslands.

Þrjár meginár renna undan Skeiðarárjökli: Súla (lengst til vestur), Gígjukvísl (fyrir miðju) og Skeiðará (lengst til austurs). Sagði Oddur að útfall Skeiðarár væri í um 100m yfir sjó en Gígjukvíslar í 60-70. „Það var skrýtið að aðaláin skyldi geta verið með svona miklu hærra útfalli en áin við hliðina á og mér þótt fyrirséð að þegar jökullinn styttist hlyti svo að fara að árnar rynnu saman þar sem lægst var,“ segir hann. „Ég spáði því að eftir að minnsta kosti fimm ár og innan 20 ára myndi þetta gerast.“

Sú spá er nú orðin að raunveruleika og um miðnætti þann 15. júlí hvarf áin algerlega þótt örlítið streymi í farveginum núna. Gerðist þetta á mjög skömmum tíma, á að giska einni viku.

Nýtt lón

Oddur segir að allar upplýsingar um jökulinn sýni að landið undir honum sé lægra en fyrir framan hann, jafnvel fyrir neðan sjávarmál. Því hafi myndast þar lón og myndi það lón verða eins og Jökulsárlón. „Munurinn á þessum tveimur er hins vegar sá að þegar Skeiðarárhlaupin koma mokast aur út í lónið og getur fyllt það. Stór hlaup gætu því látið lónið flæða yfir stóran hluta sandsins,“ segir Oddur.

Oddur segir ekki vafa leika á því að nú hafi orðið stór sögulegur atburður. „Áin er búin að vera einn mesti farartálmi landsins og þá sér í lagi hlaupin. Nú munu þau flytjast yfir í Gigjukvíslarfarveginn og brúin standa tóm framvegis.“ Hann segist ekki hafa trú á því að áin komi aftur, ekki einu sinni í hlaupum. Þau þyrftu að vera mjög stór svo það gerðist. Vatn árinnar þarf að falla úr 110m í 60 og grefur áin sig því fljótt. Mikið þyrfti því til svo áin færi yfir hrygginn sem væri að myndast þarna.

mbl.is