Innbrotum og þjófnuðum fjölgar

Innbrotum hefur fjölgað verulega milli ára eða um 61%, eftir því sem fram kemur í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Í júní 2009 voru innbrot 290, á sama tíma í fyrra voru þau 180 og 189 árið 2007.

Samkvæmt tölum ríkislögreglustjóra voru umferðarlagabrot 6.231 í júnímánuði 2009 og eru þau heldur fleiri en á sama tíma í fyrra. Árið 2005 sker sig þó úr en þá voru umferðarlagabrot undir 5.000 í júní.

Flest umferðarlagabrot eru skráð á höfuðborgarsvæðinu, 2.419 brot en næstflest í Borgarnesi, 1.615. Í þessum umdæmum eru hraðamyndavélar afkastamiklar. Umferðarlagabrotum í júní 2009 fækkar í átta lögregluumdæmum borið saman við júní 2008 en fjölgar aftur á móti í sjö umdæmum. Langmest er fjölgunin í Borgarnesi, þar fjölgar umferðarlagabrotum úr 649 í júní 2008 í 1.615 í júní 2009.

Fíkniefnabrot voru 133 og fjölgaði þeim um 40% milli ára en þau voru á sama tíma fyrir ári 92.

Hegningarlagabrot voru 1.405 í júní og nam fjölgun þeirra 23% milli ára.

Hraðaakstursbrot eru nokkuð stöðug milli ára en þau voru 4.951 í júní 2009.

Fjölgun var í þjófnaðarbrotum rétt eins og síðustu mánuði og nemur hún 50% milli ára.

Innbrotum fjölgar verulega milli ára eða um 61%. Í júní 2009 voru þau 290, á sama tíma í fyrra voru þau 180 og 189 árið 2007.

Fíkniefnabrotum fjölgar einnig og nemur sú fjölgun 44% milli ára.

Tilkynnt brot um nytjastuld árið 2009 eru 126% fleiri ef miðað við árið á undan en vegna þess hve brotin eru fá eru tölurnar viðkvæmar fyrir breytingum.

Efnahagsbrot sem kærð voru til ríkislögreglustjóra voru 186 fyrstu 6 mánuði ársins en árið 2008 voru þau samanlagt 223 og 121 árið 2007.
Þetta gefur að mati ríkislögreglustjóra vísbendingu um að brotin geti jafnvel orðið fleiri árið 2009 en þau hafa verið undanfarin tvö ár. Auðgunarbrot og brot gegn sérrefsilögum eru orðin fleiri á fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við síðustu tvö ár. Þá segir að rekja megi fjölgun auðgunarbrota til fjársvika og brot á lögum um bókhald hafi aukist innan sérrefsilagabrota. Þá hefur einnig orðið fjölgun í öðrum brotum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert