Matjurtir merktar upprunalandi

mbl.is/Ómar

„Með þessum samningi og viljayfirlýsingu er verið að tryggja í sessi stöðu garðyrkjubænda,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en hann undirritaði fyrr í dag breytingar á gildandi aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá mars 2002. Við sama tækifæri kynnti hann nýja reglugerð sem tekur gildi 1. september nk. þar sem kveðið er á um merkja skuli matjurtir með upprunalandi. Sagðist Jón sannfærður um að upprunamerking myndi styrkja stöðu íslenskrar framleiðslu enn frekar í sessi. 

Aðlögunarsamningurinn er sambærilegur breytingum sem gerðar voru á búvörusamningnum sem gerðir voru í apríl sl. varðandi framleiðslu mjólkur og kindakjöts. Þannig eru samningsaðilar, þ.e. ríkið, Bændasamtök Íslands og Samband garðyrkjubænda, sammála um að framlengja samninginn um tvö ár eða til ársloka 2013 og verður hann vísitölubundinn frá þeim tíma.

Framlög á árinu 2009 verða eins og fjárlög kveða á um eða 251,7 milljónir króna. Framlög ársins 2010 verða 2% hærri en 2009 og verða 257 milljónir króna óháð verðlagsþróun. Árið 2011 hækka framlög aftur um 2% frá árinu 2010 auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að uppfylla samninginn. 

Samhliða samningnum var undirrituð viljayfirlýsing um ásetning aðila um að auka hagkvæmni íslenskrar ylræktar og auka möguleika greinarinnar á komandi árum. Yfirlýsingin hljóðar svo: „Til að auka hagkvæmni íslenskrar ylræktar lýsa samningsaðilar yfir vilja sínum að skoða sameiginlega hvort hægt sé að draga enn frekar úr framleiðslukostnaði eins og með bættri orkunýtingu og með því að efla þróun og nýjungar almennt. Jafnframt þessu setja samningsaðilar sér það markmið að auka möguleika greinarinnar, t.d. með útflutningi og treysta hana þannig betur í sessi á komandi árum. Í þessu sambandi munu samningsaðilar setja á fót starfshóp sem hafi það hlutverk að leita leiða til að ná fram ofangreindum markmiðum.“

Við undirritunina minnti Þórhallur Bjarnason, formaður Sambands garðyrkjubænda, á að garðyrkjubændur væru enn óánægðir með hátt raforkuverð til garðyrkjubænda. Sagðist hann fagna reglugerðinni um merkingu upprunalands enda hefði það verið baráttumál garðyrkjubænda sl. ár. 

„Samningar við bændur eru mikilvægari en menn hafa áður gert sér grein fyrir,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Sagði hann nýlega samantekt BÍ sýna að íslenskur landbúnaður framleiði um 50% allra matvæla sem neytt eru hérlendis.   Á myndinn eru Haraldur Benediktsson, Jón Bjarnason, Þórhallur Bjarnason og …
Á myndinn eru Haraldur Benediktsson, Jón Bjarnason, Þórhallur Bjarnason og Steingrímur J. Sigfússon
mbl.is

Bloggað um fréttina