Óttaslegin utanríkismálanefnd

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Ómar

Fundur utanríkismálanefndar í morgun var stuttur og voru fulltrúum minnihlutans í nefndinni þar kynntar lagfæringar á áliti nefndarinnar.

Að sögn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Borgarahreyfingarinnar, er sterk undiralda í áliti meirihlutans, sem fæstir ef nokkur fulltrúi minnihlutans getur skrifað upp á. Tónninn í álitinu sé ákveðinn óttaáróður þess efnis að ef ekki verði gengist við Icesave-samningunum óbreyttum hafi íslenskt efnahagslíf verra af. Stefnir því í að allt að fjögur álit komi frá utanríkismálanefnd í málinu.

Birgitta segist þrátt fyrir þetta verða að hrósa Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir að hafa tekið tillit til ýmissa atriða sem komu frá minnihlutanum og ýmsum álitsgjöfum.

Hún segir nauðsynlegt að málið fái þann tíma sem það þarf í þinginu og ljóst sé að ef reynt verði að keyra það í gegn þá falli málið einfaldlega í atkvæðagreiðslu.

mbl.is