Farið verður yfir fjárhagsvanda lögreglunnar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar, sagði á Alþingi í dag einsýnt að koma verði til aukið fjármagn til lögreglunnar. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar í morgun og verða dómsmálaráðherra og fulltrúi lögreglunnar í kjölfarið fengin til að fara yfir ástandið.

Atli Gíslason, varaformaður allsherjarnefndar, minntist á málefni lögreglunnar við umræðu um frumvarp vegna eflingar embættis sérstaks saksóknara. Hann sagði svo virðast að Íslendingar væru að ganga í gegnum reynslu Finna árin 1992-94 þegar afbrot jukust verulega í kreppunni sem kom til eftir hrun Sovétríkjanna.

Atli sagði ljóst að það þurfi að horfa til þeirrar hliðar kreppunnar og efla almenna löggæslu. „Bæði með hagræðingu og eins að horfa til þess að fjárveitingar hafa verið naumt skornar á undanförnum árum. Þetta eru vandamál sem Alþingi verður að taka á.“

Birgir Ármannson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom upp í andsvari og tók undir með Atla og sagðist deila áhyggjum hans af ástandinu.

Ekki aðeins fjármagn heldur styrking

Atli bætti síðar við að hann teldi alla þingmenn deila þessum áhyggjum. „Þetta er, að ég hygg, orðin staðreynd, að afbrot hafa aukist í kjölfar kreppunnar. [...] Ég vil svo nefna það varðandi hina almennu löggæslu að komið hafa fram hugmyndir innan lögreglunnar um skipulagsbreytingar sem eru til þess fallnar að styrkja hina almennu löggæslu, horfa meira til hennar. Ég hef séð slíkar tillögur sem ég get stutt. En burtséð frá því held ég að það þurfi að auka fjárveitingar til almennrar löggæslu.“

Í lokaræðu um frumvarpið kom Steinunn Valdís upp í ræðustól. Hún sagði ljóst að aðbúnaður hinnar almennu löggæslu skipti mjög miklu máli. „Það hafa borist fréttir af bréfum og skrifum einstakra lögreglumanna um aðbúnað lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um skort á mannafla og fjármunum. Ég held að við eigum að taka þetta mjög alvarlega.“

Steinunn bætti að lokum við að hún teldi að ekki aðeins þyrfti að koma til aukið fjármagn heldur einnig styrking á lögreglunni og skipan lögreglumála í landinu.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert