Mótmæli gegn Icesave á Austurvelli

Kannski verður þessi kona stödd með skilti sitt á Austurvelli …
Kannski verður þessi kona stödd með skilti sitt á Austurvelli á morgun. Börn Íslands á Facebook

Hópur á Facebook stendur fyrir mótmælum gegn Icesavesamningnum á Austurvelli og fyrir framan skrifstofur sýslumanna á morgun, föstudag. Byrja mótmælin klukkan tvö og eiga að standa til sjö.

Hópur sem kallar sig Börn Íslands stendur fyrir mótmælum gegn Icesavesamningnum á Austurvelli og fyrir framan skrifstofur sýslumanna um land allt á morgun föstudag, undir slagorðinu: Ekki samþykkja Icesave samningana í núverandi mynd.

Á síðunni sem hópurinn hefur stofnað á  fésbókinni segir að mótmælendur vilji hvetja Alþingi til þess að samþykkja ekki ríkisábyrgð miðað við núverandi Icesave samninga. Þar stendur: „Við erum ekki tilbúin til að leggja framtíð barna Íslands að veði. Mætum því á Austurvöll og fyrir framan skrifstofur sýslumanna um land allt til að sýna okkar vilja."

Fimmtíu og þrír hafa tilkynnt sig í mótmælin og eru 48 í viðbót enn óákveðnir.

Hér má sjá síðu hópsins á fésbókinni.

mbl.is