Ísland skipi sér á ný í fremstu röð

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, fer fyrir stýrihópi sem leggja …
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, fer fyrir stýrihópi sem leggja á grunn að nýrri sóknaráætlun fyrir Ísland.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnið verði áfram að verkáætlun um hvernig best verði lagður grunnur að nýrri sókn í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Verkefnið er liður í efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar og hefur að markmiði að Ísland skipi sér á ný í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og sönnum lífgæðum. Áætlunin hefur fengið nafnið „20/20 - Sóknaráætlun fyrir Ísland.“

Dagur B. Eggertsson er formaður stýrihóps verkefnisins en aðrir í hópnum eru Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, og Svafa Grönfeldt, rektor HR.

Gert er ráð fyrir að fleiri ráðherrar komi að verkefninu og taki þátt í störfum hópsins þegar fram líða stundir. Ríkisstjórnin mun á þessu ári verja 10 milljónum króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til verkefnisins.

Draga fram styrkleika og sóknarfæri 

Verkefnið sem unnið verður í víðtæku samráði á næstu mánuðum, felst í því að draga fram styrkleika og sóknarfæri þjóðarinnar og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Lögð verður áhersla á að ná breiðri samstöðu um sameiginlega framtíðarsýn og lykilákvarðanir í endurreisnarstarfinu.

Markmiðið er að forgangsraða fjármunum, nýta auðlindir og virkja mannauð þjóðarinnar til að vinna gegn fólksflótta og leggja grunn að almennri velsæld. Auk þess að leggja grunn að nýrri atvinnustefnu verður við undirbúning sóknaráætlunar sérstaklega kallað eftir hugmyndum um endurskipulagningu í opinberri þjónustu, stjórnkerfi og stjórnsýslu. Þá verður gerð tillaga að nýrri skiptingu landsins í svæði til að skapa viðspyrnu í endurreisnarstarfinu og stuðla að sterku samfélagi og vænlegum lífsgæðum til framtíðar.

Unnið verður að því að samþætta og aðlaga fjölmargar áætlanir ríkisins að breyttum áherslum, þ.m.t. í samgöngumálum, fjarskiptamálum, menntamálum, menningarmálum, nýsköpun, nýtingu orkulinda, umhverfismálum, landskipulagsmálum, ferðamálum og byggðamálum auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Auka þarf samkeppnishæfni landsins

Skipaðir verða samráðshópar í öllum landshlutum og unnar samþættar áætlanir fyrir hvert svæði um sig sem hafa sameiginlega skírskotun til eflingar atvinnu, menntunar og opinberrar þjónustu innan svæðisins. Þannig getur orðið til ný skipting landsins í svæði sem hvert um sig stefnir að sameiginlegum markmiðum til samfélagslegrar uppbyggingar.

Stýrihópurinn hefur unnið drög að verkefnisáætlun sem skiptist í nokkra meginþætti og fela m.a. í sér víðtækt samráð um mótun valkosta fyrir framtíðina og þau gildi sem liggja eiga til grundvallar framtíðarsýn íslensku þjóðarinnar. Þá verður sérstaklega hugað að lykilþáttum sem aukið geta samkeppnishæfni landsins.

Gert er ráð fyrir verkefnið hefjist formlega á haustdögum og ljúki haustið 2010 þegar fyrir liggi framtíðarsýn og sóknaráætlun sem nái til ársins 2020.

mbl.is