Með stolið vegabréf

Erlendur karlmaður er haldi lögreglunnar á Suðurnesjum. Hann kom með flugvél frá Stokkhólmi í gær og ætlaði áfram til Kanada.

Maðurinn framvísaði sænsku vegabréfi en í ljós kom að það var ekki hans eigið. Grunur leikur á að maðurinn hafi stolið vegabréfinu. Þegar upp komst sótti maðurinn um hæli hér á landi. Hann sagðist við skýrslutökur hjá lögreglunni, vera með ríkisfang í Kongó.

Mál mannsins fer nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Óvíst er hvort ákæra verður gefin út á hendur honum fyrir misnotkun skjala, líkt og venja er í málum sem þessu. Það ræðst af því hver afgreiðsla á hælisumsókn mannsins verður.

Á annan tug mála frá áramótum

Frá áramótum hafa að minnsta kosti 15 manns verið handteknir við komu til landsins í Leifsstöð með fölsuð eða stolin skilríki. Oftar en ekki er um að ræða fólk sem kemur frá Evrópu og hyggst halda áfram för sinni til Kanada og þaðan til Bandaríkjanna.

Að sögn lögreglu á Suðurnesjum eykst straumurinn mjög þegar áætlunarflug milli Íslands og Kanada hefst á vorin. Nær undantekningalaust er viðkomandi ákærður og dæmdur til fangelsisvistar í 30 daga og gert að greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda. Að lokinni afplánun er viðkomandi sendur til síns heima eða upprunalands.

Algengt er að sá sem tekinn er með falskt vegabréf, óski eftir hæli hér á landi þegar upp kemst um fölsuðu skilríkin. Það er þó ekki algilt en tilgangur þeirra sem sækja um hæli undir þeim kringumstæðum, er oftar en ekki að koma sér hjá ákæru og refsingu.

Að minnsta kosti sex dómar hafa verið kveðnir upp frá áramótum.

8. maí 2009: Sómalskur ríkisborgari, sem kom frá Ítalíu, framvísaði sænsku vegabréfi í Leifsstöð. Dómur:30 daga fangelsi - Sakarkostnaður 87.150 krónur.

10. júní 2009: Ríkisborgari frá Sri Lanka sem kom frá Osló, framvísaði Singapore vegabréfi. Dómur:Eins mánaðar fangelsi - Sakarkostnaður 125.000 krónur.

10. júní 2009: Íraskur ríkisborgari sem kom frá Osló, framvísaði sænsku vegabréfi. Dómur:Eins mánaðar fangelsi - Sakarkostnaður 125.000 krónur.

12. júní 2009: Afganskur ríkisborgari sem kom frá Kaupmannahöfn, framvísaði sænsku vegabréfi. Dómur:Eins mánaðar fangelsi - Sakarkostnaður 85.408 krónur.

12. júní 2009: Moldóvskur ríkisborgari sem kom frá Kaupmannahöfn, framvísaði ísraelsku vegabréfi. Dómur:Eins mánaðar fangelsi - Sakarkostnaður 85.407 krónur.

18. júní 2009: Nígerískur ríkisborgari sem kom frá Alicante, framvísaði kanadísku vegabréfi. Dómur:30 daga fangelsi - Sakarkostnaður 96.861 króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert