Dyr límdar aftur og málningu slett

Grænni málningu var slett á hús Friðriks Sophussonar og dyrnar ...
Grænni málningu var slett á hús Friðriks Sophussonar og dyrnar límdar aftur. Saving Iceland

Grænni málningu var skvett á hús Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, aðfararnótt 28. júlí og dyrunum lokað með lími. Voru það samtök sem kalla sig A.S.Ö sem voru að verki. Segjast þau ekki gera greinarmun á persónuleika forstjóra fyrirtækis þegar hann er í vinnunni og þegar hann er heima hjá sér.

Meðlimir í samtökunum fóru að húsi Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, aðfararnótt þriðjudags. Þar skvettu þeir grænni málningu á húsið og límdu dyr hans fastar.

Samtökin segja forstjóra fyrirtækis ekki breyta um persónuleika eftir því hvort hann er í vinnunni eða heima hjá sér. Landsvirkjun hafi í nafni peninga og valds markvisst eyðilagt íslenskar óbyggðir og forstjórinn beri sömu ábyrgð á báðum stöðum.

Þá segir í yfirlýsingu samtakanna að ábyrgð einstaklingsins sé ástæða þess að ráðist sé persónulega að þeim sem sitji hæst í fyrirtækjum kapítalista eins og Landsvirkjun. Fólk vilji líf sín, frelsi og óbyggðir til baka. Nóttin sé með þeim í liði.

ATHUGASEMD sett inn klukkan 21:31. Fyrr í kvöld var sagt að Saving Iceland hafi staðið á bak við athæfið en það er ekki rétt og biður mbl.is afsökunar á þessu ranghermi.

mbl.is

Bloggað um fréttina