Svigrúm til að setja skilyrði

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist treysta fjárlaganefnd Alþingis til að finna farsæla lausn á Icesave málinu innan þess svigrúms sem sé fyrir hendi.

Alþingi hafi svigrúm til að setja skilyrði sem snúi að ríkisábyrgðinni þótt það geti ekki einhliða breytt samningi. Í samningnum sé endurskoðunarákvæði sem hægt sé að tengja við einhver viðmið. Þá geti Alþingi afmarkað ábyrgðina með einhverjum hætti. Hann treysti Fjárlaganefnd til að vega það og meta. 

Hann segir að slíkir skilmálar geti engan veginn túlkast sem áfellisdómur yfir Icesave-samninganefndinni þótt þingið geri það.  Hún hafi unnið gott starf. Hann útilokar ekki að ræða þurfi við Breta og Hollendinga sérstaklega vegna þeirra skilyrða sem Alþingi kunni að setja.

Steingrímur segir enga innistæðu fyrir sjónarmiði Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmann sem  telji að Tryggingasjóður innstæðueigenda eigi að eiga forgangskröfu í þrotabúið og mistök hafi verið gerð í samningnum. Engin slík skilyrði verði því sett. Hann segir að umræðan hafi þróast á jákvæðan hátt, menn séu hættir að yppta öxlum og segja að málið komið þeim ekki við.

mbl.is