Settur ríkissaksóknari í málum sérstaks saksóknara.

Sigurður Tómas Magnússon saksóknari og Björn L. Bergsson en Björn …
Sigurður Tómas Magnússon saksóknari og Björn L. Bergsson en Björn var ráðgjafi Sigurðar í Baugsmálinu mbl.is/G.Rúnar

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra hefur í dag sett Björn L. Bergsson hrl. til að fara með hlutverk og valdheimildir ríkissaksóknara gagnvart embætti sérstaks saksóknara, samanber lög um meðferð sakamála sem tóku gildi í dag.

Gegnir Björn því embætti ríkissaksóknara í öllum málum sem sérstakur saksóknari hefur til meðferðar. Er Björn settur til 1. júní 2010, en Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari hefur sagt sig frá þessum málaflokki til þess tíma, svo sem fyrr hefur verið greint frá.

Björn L. Bergsson hrl. er fæddur 4. mars 1964 og lauk lagaprófi frá HÍ árið 1990. Hann hlaut héraðsdómsréttindi árið 1992 og varð hæstaréttarlögmaður árið 1999. Hann starfaði sem fulltrúi á Lögfræðiskrifstofu Guðjóns Ármanns Jónssonar hdl. 1990–1993. Hann var fulltrúi á Lögmannsstofu Arnmundar Backman hrl. 1993–1995 en er nú einn eigenda Mandat lögmannsstofu.

Björn var um árabil einn lögmanna Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Hann er stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík á sviði opinbers réttarfars. Þá var hann ráðgjafi setts ríkissaksóknara í svonefndu Baugsmáli.

mbl.is