Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa

Rannsóknarnefnd Alingis. Í henni eiga sæti Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, …
Rannsóknarnefnd Alingis. Í henni eiga sæti Tryggvi Gunnarsson, Páll Hreinsson, sem er formaður, og Sigríður Benediktsdóttir. mbl.is/Ómar

Páll Hreinsson, formaður Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið segir að nefndin færi þjóðinni líklega verri fréttir en nokkur nefnd hafi áður þurft að gera. Nefndin birtir niðurstöður sínar 1. nóvember. Rúv greindi frá.

Rannsóknarnefnd Alþingis var komið á fót til þess að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Lokið var við að skipa í nefndina 30. desember 2008. Í henni eiga sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Meginhlutverk rannsóknarnefndarinnar er að safna upplýsingum um staðreyndir málsins, draga upp heildarmynd af aðdraganda að falli bankanna og svara þeirri spurningu hverjar hafi verið orsakir þess. Þá á nefndin að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.

Formaður nefndarinnar sagði í þættinum í vikulokin á Rás eitt að meðal fyrstu verka nefndarinnar hafi verið að taka saman lista yfir 100 stærstu lántakendur og skuldara bankanna. Í ljós hafi komið að helmingur heildarútlána bankanna hafi verið til þessara hundrað stærstu. Páll sagði að vandamálið hefði verið miklu stærra en menn gerðu sér grein fyrir og þau væru mismunandi eftir fyrirtækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina