Íslenskri fjölskyldu vísað úr landi

Íslensk kona hefur verið skikkuð með dómsúrskurði til snúa til Bandaríkjanna með tvo drengi á barnsaldri fyrir sunnudaginn næstkomandi.

Borghildur Guðmundsdóttir á drengina með bandarískum hermanni sem vill höfða forræðismál í Bandaríkjunum og freista þess að fá börnin til sín. Brynhildur segist spyrja sig hvort það sé hægt að henda íslenskum ríkisborgurum úr landi eins og tuskum án þess að neitt sé hægt að gera. Hver sé réttur barnanna, hvort það megi svipta þau móður sinni og öllu öryggi sem þau þekki. Hvort ríkið ætli virkilega að henda þeim úr landi.

Hún á ekki fyrir miðunum, dvalar- og atvinnuleyfi hennar í Bandaríkjunum er runnið út og hún segist ekki eiga neina peninga eða aðstoð vísa til að reka mál sitt fyrir bandarískum dómstól. Hún höfðaði mál til að fá úrskurðinum hnekkt en tapaði málinu bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Hún segist hafa leitað til lögfræðinga og dómsmálayfirvalda eftir aðstoð en ekkert sé að hafa, hvorki hér né þar.

Þá hafi hún ekki fengið nein skýr svör um hvað gerist ef hún snúi aftur til Bandaríkjanna. Hún hafi hinsvegar fengið að vita að bæði Interpol og bandaríska alríkislögreglan muni skerast í leikinn ef hún hlíti ekki úrskurðinum.

Borghildur fékk lögskilnað frá manninn fyrir ári en þar áður höfðu þau verið skilin að borði og sæng um hríð.  Hún segist hafa verið háð eiginmanni sínum fyrrverandi um framfærslu enda í námi en hann hafi gengið þannig frá öllum hnútum fjárhagslega að hún geti ekki framfleytt sér í Bandaríkjunum. Þess vegna hafi hún snúið til Íslands með börnin, áður en lögskilnaður var genginn í gegn en í Bandaríkjunum eru þau opinberlega með sameiginlegt forræði.

Hún segir að maðurinn hafi sjálfur gefið vilyrði fyrir því að hún færi úr landi. Lögin kveði á um að ef hann geri ekki athugasemd innan tólf mánaða geti hann ekki kallað eftir börnunum. Hann hafi hinsvegar krafist þess að fá börnin eftir þrettán mánuði. Hún segir að málinu hafi greinilega verið klúðrað fyrir íslenskum dómstólum. Það geti varla verið ætlunin að þetta fari svona. Það sé í raun verið að stilla henni þannig upp við vegg að hún neyðist til að skilja börnin eftir í Bandaríkjunum, í ókunnu fylki, hjá manni sem yngsti drengurinn þekkir varla. Hann hafi auk þess skaðast á geði í Íraksstríðinu og börnin séu hrædd við hann.

Dómur Hæstaréttar í málinu 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert