Auglýsendur stýra umræðunni

mbl.is/Ásdís

Niðurstöður rannsóknar um umfjöllun fjölmiðla um grunnskólabyrjun og flutning úr leikskóla í grunnskóla sýna að auglýsendur setja mikinn svip á umfjöllun í fjölmiðlum. Þá sýna þær að raddir barna, foreldra og skólafólks heyrast sjaldan í þeirri umræðu. 

Rannsóknin sem unnin er af Dr. Jóhönnu Einarsdóttur prófessor við Menntavísindasvið sýnir að umfjöllun um skólaföt, skólatöskur og skólavörur ýmiskonar er áberandi í umræðunni og að auk auglýsenda hefur fjölmiðlafólk mikil áhrif á umræðuna með því að velja það sem fjallað er um.  

Undantekning frá þessu er þó umfjöllun um skort á plássi á frístundaheimilum sem foreldrar hafa sett svip sinn á.  

Þá er greinilegt af umræðunni að litið var á foreldra sem mikilvæga stuðningsaðila barna sinna. Þeir voru hvattir til að undirbúa börnin fyrir grunnskólagönguna m.a. með því að þjálfa þau til sjálfsbjargar og að fara eftir fyrirmælum. Ekki var hins vegar lögð áhersla á stuðning félaga eða á samfellu og tengsl skólastiganna.  

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hverjir fjalla um grunnskólabyrjunina og flutninginn úr leikskóla í grunnskóla í fjölmiðlum, hvernig grunnskólabyrjunin er kynnt og hvaða sýn á börn endurspeglast í fjölmiðlum.

Fréttaflutningi, umræðum og textum um grunnskólabyrjunina var safnað úr fréttum og fréttatengdum þáttum í Ríkissjónvarpi, Stöð 2, útvarpi, dagblöðum og tímaritum haustið 2008.

Orðræðugreiningu var beitt til að rannsaka og greina gögnin. Í niðurstöðunum mátti greina fjölbreytt viðhorf til barna en mest áberandi var sú sýn á börn að þau væru saklaus og varnarlaus. Endurspeglaðist þetta viðhorf í myndefni, ráðleggingum til foreldra, umfjöllun um hætturnar í umferðinni og gæslu barna á frístundaheimilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert