FT: Ábyrgðin sameiginleg

Icesamningum mótmælt
Icesamningum mótmælt mbl.is/Ómar

Icesave samkomulaginu er líkt við Versalasamninginn á Íslandi ritar dálkahöfundurinn Andrew Hill í Financial Times í dag. Hann segir að Bretar hafi beitt Íslendinga hörku, eitthvað sem þeir hefðu aldrei gert gagnvart stóru ríki, til að mynda Indlandi. En indverskir bankar hafi á sama tíma og þeir íslensku verið að bjóða upp á útblásna vexti í Bretlandi.

En ábyrgðin er líka í höndum íslenskra yfirvalda, þeirrar ríkisstjórnar sem var við völd á Íslandi á þessum tíma og Fjármáaleftirlitsins. Ábyrgðin er því sameiginleg með breskum og íslenskum yfirvöldum. Með öðrum orðum er tími kominn á sameiginlega velvild, líkt og forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, leggur til, ritar Hill í FT í dag. (En Jóhanna ritaði opið bréf í Financial Times sem birtist í netútgáfu FT í fyrrakvöld og í pappírsútgáfunni í gær). 

Í greininni neitar Jóhanna ásökunum um að Íslendingar hneigist til að halda að allt sem miður hefur farið megi rekja til samsæris Breta og Hollendinga. „Íslendingar, sem telja sig ekki bera ábyrgð á bankakreppunni í heiminum, eru tilbúnir að færa fórnir til að tryggja eðlileg tengsl og viðskipti við umheiminn. En þeir eru reiðir yfir því að þurfa að bera byrðarnar vegna Icesave-reikninga Landsbanka.“

„Vonandi gerir fólk í stórum löndum á borð við Bretland og Holland sér grein fyrir þeim varanlegu afleiðingum sem gerðir ríkisstjórna þeirra geta haft fyrir lítið land eins og okkar þegar miklir erfiðleikar steðja að því,“ skrifaði Jóhanna í grein sinni.

Verða gera sér grein fyrir sínum hlut í sorgarsögunni

Hill segir að þeir sem áttu innistæður á Icesave-reikningum í Bretlandi hafi fengið þær að mestu greiddar. Hann telur að breskir sparifjáreigendur eigi að gera sér grein fyrir sínum hlut sorgarsögunni. Eftir allt þá hafi enginn neytt þá til þess að leggja inn á Icesave-reikningana. 

Féllu fyrir kænskubragði markaðsmanna

Hill rifjar upp í greininni, að þegar hann hafi lagt það til á síðasta ári að þeir sparifjáreigendur sem hafi lagt háar fjárhæðir inn á Icesave-reikninga fengju samúð en ekki stuðning frá breskum stjórnvöldum, þá hafi margir reiðst þeim ummælum hans.

Þeir sem hafi verið skotspónn dálksins á þeim tíma hafi ekki verið venjulegir sparifjáreigendur sem áttu innistæður undir 35 þúsund pundum á Icesave-reikningum en þær fjárhæðir hafi verið tryggðar af Tryggingasjóði innlána á þeim tíma.

Heldur hafi greinarskrifin beinst gegn þeim sem áttu hærri fjárhæðir inni á reikningunum sem buðu upp á óeðlilega háa vexti. Þeir sparifjáreigendur hafi fallið fyrir kænskubragði markaðsmanna og stjórnvöld hafi ekki átt að þurfa að leysa þá úr snörunni. Flestir þessara viðskiptavina hafi sagt sökina allra annarra nema þeirra sjálfra, að sögn Hill.

Síðar samþykktu bresk stjórnvöld  að útvíkka reglur Tryggingasjóðs innlána og flestir hafi fengið greitt úr sjóðnum. Það ætti að auka líkurnar á því að hlustað verði á Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur óskað eftir því að Bretar og Hollendingar slaki á kröfum sínum gagnvart íslensku þjóðinni.

Versalasamningurinn var gerður við lok fyrri heimstyrkjaldarinnar árið 1919. Hann var gerður milli bandamanna og Þjóðverja og kvað á um að Þjóðverjar bæru ábyrgð á styrjöldinni. Þeim var gert að greiða háar stríðsskaðabætur til Bandamanna, láta lönd af hendi til Frakklands og Póllands, nýlendur voru teknar af þeim og takmarkanir voru settar á heimild Þjóðverja til að halda úti herliði.

Grein Hill í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert