Mun ekki hindra Borghildi í að umgangast drengina sína

Richard Colby Busching með sonum sínum
Richard Colby Busching með sonum sínum mbl.is

„Ég er ekki maður af því tagi sem myndi hindra börnin sín í að umgangast móður sína,“ segir Richard Colby Busching, barnsfaðir og fyrrverandi eiginmaður Borghildar Guðmundsdóttur. Hann hyggst þó sækja um fullt forræði yfir sonum þeirra fyrir bandarískum dómstólum og segist bjartsýnn á að dómur falli honum í vil. Busching hyggst ekki kæra Borghildi fyrir ólögmætt brottnám drengjanna.

Við skilnað þeirra hjóna segist Busching hafa fallist á það munnlega að Borghildur hefði forsjá drengjanna. Forsendur hans fyrir því voru þó þær að mæðginin yrðu áfram í Bandaríkjunum en hann segist hafa búist við að hún héldi áfram námi og starfi þar í landi. Ætlunin hefði verið að þegar drengirnir yrðu eldri myndu þau skoða að þeir flyttu til Íslands.

„Í staðinn fyrir að takast á við málið eins og ábyrg fullorðin manneskja ákvað hún að flýja land,“ segir Busching og kveður forsendur fyrir forræði hennar þar með hafa brostið.

Hlustaði á símtöl feðganna

Busching hefur ekki hitt syni sína í hálft annað ár. Borghildur stóð þó ekki í vegi fyrir því en hann segir lögfræðing sinn hafa ráðið sér frá því að heimsækja þá á Íslandi þar sem dómstólar gætu þá metið það svo að hann hefði efni á að heimsækja þá reglulega. Svo efnaður segist hann ekki vera og kveður það meðal annars vera vegna þess að hann sitji uppi með afborganir af húsi þeirra Borghildar í Bandaríkjunum og skuldir sem hún stofnaði til í hans nafni.

Hann hlakkar til að sjá drengina aftur og vísar á bug að hann hafi ekki haft samband við þá oftar en tíu sinnum síðan þeir komu til Íslands eins og Borghildur hefur haldið fram. „Þegar ég komst að því hvar þeir voru hringdi ég í þá um hverja helgi,“ segir Busching. Hann viðurkennir að símtölin hafi þó orðið sjaldgæfari þegar á leið og segir það vegna þess að Borghildur að hafi alltaf hlustað á samtöl feðganna.

Borghildur hefur sagt að Busching hafi ekki áhuga á sonum þeirra og sækist eftir forræðinu vegna þrýstings foreldra hans. Þessu hafnar Busching en segist vissulega hafa notið stuðnings foreldra sinna í málinu. Þótt foreldra hans langi mikið til að fá drengina aftur í líf sitt segir hann að hvatinn að málinu liggi hjá honum og velferð drengjanna sé hans helsta forgangsmál.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert