Nálægt breiðri sátt um Icesave-frumvarp

Árni Þór Sigurðsson og Bjarkey Gunnarsdóttir, Vinstri grænum, sjást hér …
Árni Þór Sigurðsson og Bjarkey Gunnarsdóttir, Vinstri grænum, sjást hér á leið á fund fjárlaganefndar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar allra flokka nema Framsóknarflokksins höfðu seint í gærkvöldi fallist á breytingartillögur á Icesave-frumvarpinu sem ætlað er að tryggja að endurgreiðslur á láninu frá Hollendingum og Bretum, vegna Icesave-reikninga Landsbankans, verði ekki of íþyngjandi fyrir íslenska ríkið. Fjárlaganefndin fundaði fram á nótt og freistaði þess að ná fullri sátt um breytingatillögurnar á frumvarpinu um ríkisábyrgð Tryggingasjóðs innstæðueigenda.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær vildu fulltrúar í fjárlaganefnd tryggja það með skýrum fyrirvörum að ekki væri hægt að ganga að náttúruauðlindum Íslands, kæmi til vandamála við að greiða af Icesave-lánunum. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vildu fulltrúar allra flokka einnig að tryggt væri að Ísland gæti tekið upp viðræður að nýju um lagaleg álitamál er tengdust samningnum, m.a. með tilliti til mögulegra breytinga á lögum um innstæðutryggingakerfið í Evrópu. Framsóknarmenn lögðu áherslu á að skerpa á lagalegum fyrirvörum, þannig að tryggt væri að íslenska ríkið gæti leitað réttar síns vegna hugsanlegra ágreiningsmála. Meiri áhersla var þó lögð á að tryggja sátt um efnahagslega þætti. Einnig var vilji til þess hjá þingmönnum að láta rannsaka hvað hefði orðið um innstæður á Icesave-reikningunum.

Líkt og dagana á undan ríkti mikil spenna meðal þingmanna og fulltrúa í fjárlaganefnd þegar málið var til umræðu. Birting breytingartillagna, sem höfðu verið til umræðu í fjárlaganefnd, í Morgunblaðinu í gær og einnig á vefsíðunni eyjan.is olli miklum titringi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vildu forystumenn stjórnarflokkanna, ásamt Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, að kannað yrði sérstaklega hvaðan upplýsingar hefðu komið til fjölmiðla, í ljósi þess hversu viðkvæmar upplýsingar var um að ræða.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Morgunblaðið seint í gærkvöldi að það væru „enn mikil vonbrigði“ að stjórnarflokkarnir hefðu kosið þá leið að raska ekki þeim samningum sem þegar hefðu verið undirritaðir. Það takmarkaði möguleika á því að ná fram raunverulegri og breiðri sátt um málið. Ekki væri þó útilokað að sátt næðist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »