Alvarleg skilaboð felast í minni greiðsluvilja

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. mbl.is/Kristinn

Lilja Mósesdóttir, formaður félags- og tryggingamálanefndar, segir að lánastofnanir hafi orðið varar við minnkandi greiðsluvilja hjá fólki sem geti staðið í skilum, en sjái fram á eignarýrnun á næstu árum. Hún segir þetta vera mjög alvarleg skilaboð til stjórnmálamanna.

Hún segir að tryggja verði greiðsluvilja fólks með almennum aðgerðum, sem verði hluti af samfélagssáttmála um afskriftir skulda, eða eignatilfærslu.

Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun til að ræða skuldavanda heimilanna. Lilja segir að fréttir séu að berast af því vanskil séu að aukast, þrátt fyrir þau greiðsluaðlögunarúrræði sem stjórnvöld hafi gripið til í haust og vor.

Hún segir jafnframt að fleiri sem hafi fengið frystingu á sínum lánum séu að átta sig á því að krónan muni sennilega ekkert styrkjast á næstunni.  Almenningur sé að kalla eftir varanlegum aðgerðum.

Félagslegur vandi ekki leystur á viðskiptalegum forsendum

Lilja bendir á að þau úrræði sem stjórnvöld hafi gripið til í vor og haust hafi gert ráð fyrir að efnahagsástandið myndi fljótlega rétta úr kútnum að hluta.

Bankarnir vinni nú að því að útbúa úrræði sem komi meira til móts við þarfir einstaklinga og heimila í dag. Lilja kveðst þó hafa áhyggjur af því að bankarnir reyni að leysa félagslegan vanda á viðskiptalegum forsendum, eða á grundvelli samkeppni, frekar á en á grundvelli samfélagssáttar um eignatilfærslu. 

Almenn aðgerð sem gagnist flestum 

„Það er kominn sá tímapunktur að við förum að ræða að hve miklu leyti á að grípa til almennra aðgerða eða afskrifa varanlega hluta af lánum einstaklinga og heimila,“ segir Lilja. Hún hafi ávallt haldið því fram að menn geti ekki beðið lengur en fram í haust til að taka ákvörðun um almenna aðgerð. Því þá verði neyðin orðin svo brýn. Ekki sé hægt að láta fólk halda áfram að sökkva í einhverju skuldafeni.

„Mér finnst mjög mikilvægt að nefndin ræði mjög almenna aðgerð, sem gagnast þá sem flestum skuldurum. Því það er alveg ljóst að það margborgar sig fyrir samfélagið að fá allavega einhvern hluta skuldanna til baka. Frekar heldur en að láta alla skuld vegna húsnæðislána einstaklinga falla á samfélagið í heild sinni,“ segir Lilja.

Á fundinum í morgun ræddu nefndarmenn við ýmsa gesti, m.a. Kristrúnu Heimisdóttur, sem fer fyrir nefnd félagsmálaráðherra, sem ætlað er að skoða úrræði sem eru þegar til staðar fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum. Þá var rætt við fulltrúa viðskiptabankanna, Íbúðalánsjóðs, Hagsmunasamtaka heimilanna og forstöðumann Stofnunar um fjármálalæsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert