Íbúum á Íslandi hefur fækkað

Landsmönnum hefur fækkað milli ára og má m.a. rekja það …
Landsmönnum hefur fækkað milli ára og má m.a. rekja það til þess að stóriðjufræmkvæmdum á Austurlandi lauk. mbl.is/Júlíus

Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 319.246 hinn 1. júlí 2009, en voru 319.355 fyrir ári síðan. Þetta jafngildir því að íbúum á landinu hafi fækkað um 109 á einu ári eða um 0,03%, samkvæmt upplýsingum Hagstofu, sem segir að landsmönnum hafi ekki fækkað milli ára síðan 1889.

Milli 1. júlí 2008 og 1. júlí 2009 fjölgaði íbúum í öllum landshlutum, að frátöldu Austurlandi (-8,2%) og Vesturlandi (-0,6%). Hlutfallsleg fjölgun á Vestfjörðum nam 2,3% og fjölgaði íbúum um 166 milli ára.  Á höfuðborgarsvæðinu búa nú 63,1% þjóðarinnar og fjölgaði íbúum þar milli ára um 629 eða 0,3%. Mestu munar um fjölgun í Hafnarfirði (675) og Kópavogi (600) en athygli vekur að fækkun átti sér stað í Reykjavík (-879) milli ára. Umtalsverð fjölgun átti sér stað á Suðurlandi en þar fjölgaði íbúum um 221 milli ára eða um 0,9%. Á Norðurlandi nam fjölgunin 0,2%.

Þann 1. júlí 2009 voru sveitarfélög á landinu 77 talsins. Ein sameining sveitarfélaga hefur átt sér stað það sem af er árinu 2009. Þann 1. júní sameinuðust Grímseyjarhreppur og Akureyri. Nafn hins nýja sameinaða sveitarfélags er Akureyri og voru íbúar þess 17.527 þann 1. júlí 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert