Afar óhagstætt tilboð fyrir OR

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/ÞÖK

Verði fyrirliggjandi tilboð Magma Energy samþykkt, þýðir það milljarða afföll af kaupum OR í Hitaveitu Suðurnesja og fullt eignarhald einkaaðila á HS Orku. Fyrir 66% hlut í HS Orku þurfa þessir aðilar aðeins að reiða fram 6,2 milljarða, öðrum peningagreiðslum er skotið langt inn í framtíðina. Þetta segir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík.

„Ljóst er að meirihlutinn í Reykjanesbæ samdi verulega af sér þegar gengið var frá þessum samningum og hefur sett OR í erfiða stöðu. Það tilboð sem fyrir liggur er afar óhagstætt fyrir OR,“ segir Sigrún Elsa Smáradóttir, sem situr í stjórn OR fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Hún segir að tilboðið sem Magma Energy hafi gert OR sé mjög sambærilegt samningnum sem Reykjanesbær hafi gert við Geysi Green Energy (GGE) í júlí um kaup á 34% hlut GGE í HS orku. Einungis lítill hluti tilboðana sé greiddur við undirritun og eigi tilboðin það sameiginlegt að stærsti hluti greiðslunnar fari fram eftir sjö ár.

„Verði gengið að tilboðinu hafa samstarfsaðilarnir GGE og Magma Energy  á rúmum mánuði keypt 66% hlut í HS Orku (34% af Reykjanesbæ í júlímánuði og 32% af OR) en hafa í raun aðeins skuldbundið sig til að greiða 6,2 milljarða í peningum á næstu árum. Reykjanesbær tekur einnig við 32% hlut GGE í HS veitum á yfirverði og afgangurinn kemur til greiðslu eftir 7 ár.

Til samanburðar má geta þess að OR keypti 16,6% hlut í HS fyrir 8,7 milljarða. Nú duga 6,2 milljarða útborgun til að tryggja 66% hlut,“ segir Sigrún Elsa í tölvupósti til mbl.is.

Ef tilboðið sem Magma hafi gert OR sé núvirt samsvari það gengi 4,4 ef miðað sé við 10% ávöxtunarkröfu. Ef miðað sé við 15% ávöxtunarkröfu samsvari það gengi 3,7. Afföllin séu því um 37-47% miðað við gengi 7 sem orkuveitan hafi keypt hlutinn á.

Miðað við 10% ávöxtunarkröfu samsvari afföllin því um 6 milljörðum, það sé að því gefnu að loka greiðsla skili sér eftir 7 ár.

Það sé mikið áhyggjuefni að einungis séu veð í hlutum í Hitaveitu Suðurnesja fyrir lokagreiðslum en þá hafi þessir einkaaðilar haft 7 ár til að greiða sér arð, færa til eignir eftir hentugleikum og engin trygging fyrir því að verðgildi veðanna í HS Orku hafi haldið sínu verðgildi.



Sigrún Elsa Smáradóttir.
Sigrún Elsa Smáradóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert