Lokaumræða um Icesave hafin

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, mælti fyrir nýjum breytingartillögum við Icesave-frumvarpið.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, mælti fyrir nýjum breytingartillögum við Icesave-frumvarpið. mbl.is/Eggert

Þriðja og síðasta umræða um frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánasamningana við Breta og Hollendinga, er hafin á Alþingi. Meirihluti fjárlaganefndar leggur fram nýjar breytingartillögur við frumvarpið en verulegar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í annarri umræðu.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, sagði í umræðunni að þeir fyrirvarar, sem settir hafa verið við ríkisábyrgðina samkvæmt frumvarpinu, séu afar mikilvægir og verulegar breytingar hafi orðið á málinu í meðförum fjárlaganefndar.

Frá því að samningurinn um ríkisábyrgð tryggingarsjóðsins var undirritaður, í júní á þessu ári, er mikið vatn runnið til sjávar. Breytingartillögur fjárlaganefndar hafa sett skýr skilyrði um með hvaða hætti íslenska ríkið getur tekið á sig ríkisábyrgðina. Óljóst er enn hversu mikið mun falla á Ísland, þar sem óvissa um virði eigna Landsbankans, sem ganga upp í þá skuld sem ríkið tekur á sig, er enn mikil. Í versta falli geta hundruð milljarða fallið á íslenska ríkið vegna ríkisábyrgðarinnar.

Helstu fyrirvararnir sem sátt náðist um meðal fulltrúa fjögurra flokka í fjárlaganefnd eru þeir að hagvöxtur stýri því hversu mikið er greitt af lánunum frá Hollendingum og Bretum. Þá var því bætt við, á milli 2. og 3. umræðu í nefndinni, að ríkisábyrgðin nái aðeins til ársins 2024. Samkvæmt samningnum byrja endurgreiðslur á lánum eftir sjö ár, eða árið 2016, og því mun endurgreiðslutímabilið standa í átta ár.

Samkvæmt breytingartillögunum er einnig gert ráð fyrir að ef enginn hagvöxtur verður á tilteknu tímabili verði ekki greitt af lánunum á þeim tíma. Þá er einnig tryggt að ríkisábyrgðin getur ekki tekið gildi nema Bretar og Hollendingar samþykki þá fyrirvara sem meirihluti fjárlaganefndar hefur samþykkt. Með því er tryggt að ríkisábyrgðin verði ekki of íþyngjandi fyrir íslenskan efnahag.

Grundvallarbreyting

„Mér finnst Alþingi hafa sýnt styrk sinn í þessu máli. Nefndarvinnan í fjárlaganefnd hefur gjörbreytt málinu og skapað betri sátt um það, svo ekki sé talað um mikilvægi fyrirvaranna sem settir eru við ríkisábyrgðina,“ segir Ragnar H. Hall hrl. um breytingartillögurnar sem fjárlaganefnd hefur samþykkt vegna frumvarps fjármálaráðherra um ríkisábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna Icesave-skulda Landsbankans.

Ragnar segir samstöðuna meðal allra flokka, nema Framsóknarflokks, hafa skipt miklu máli. „Mér finnst hún [samstaðan, innsk. blm.] vera mesti sigurinn.“

mbl.is