Innritun í framhaldsskóla endurskoðuð

Í samræmdu prófi.
Í samræmdu prófi. mbl.is

Vinnan við endurskoðun á innritunarferlinu í framhaldsskólana er að hefjast, að sögn Arnórs Guðmundssonar, skrifstofustjóra skrifstofu menntamála í menntamálaráðuneytinu.

„Það er alveg ljóst að taka verður á þessu. Það hafa komið það mörg sjónarmið fram,“ segir Arnór.

Engin samræmd próf voru haldin upp úr 10. bekk grunnskólanna síðastliðið vor þar sem þau höfðu verið afnumin með nýjum grunnskólalögum sem tóku gildi í fyrrasumar.

Samkvæmt nýjum grunnskólalögum á að útfæra ákvæði um lok grunnskóla og útskrift í aðalnámskrá. Hún kemur hins vegar ekki út í heild fyrr en á næsta ári.

Við inntöku nýrra nemenda síðastliðið vor tóku framhaldsskólarnir mið af skólaeinkunnum.

Inntökukerfið þótti ósanngjarnt og bent var á að grunnskólarnir hefðu ekki nægan ramma frá menntamálaráðuneytinu um hvernig skólaeinkunn skyldi fundin. Þess vegna væru skólaeinkunnir milli skóla ekki sambærilegar.

Vinnuhópur á vegum menntamálaráðuneytisins mun nú afla gagna varðandi skólaeinkunnir, að því er Arnór greinir frá.

„Það verður skoðað hvort þær hafi mögulega breyst milli ára,“ segir hann.

Nemendur í 10. bekk munu, samkvæmt nýju grunnskólalögunum, þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku um miðjan september.

Ekki stóð til að menntamálaráðuneytið sendi framhaldsskólunum niðurstöður þessara samræmdu prófa. „Þetta eru könnunarpróf en ekki lokapróf og það á ekki að breyta þessu ákvæði,“ segir Arnór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert