Kannabisræktun upprætt í nágrenni Blönduóss

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögreglan á Blönduósi upprætti í gærkvöld kannabisverksmiðju á sveitabæ í nágrenni Blönduóss.

Í tilkynningu segir að í þó nokkurn tíma hafi lögreglan haft til rannsóknar ætlaða kannabisræktun á sveitabæ í nágrenni Blönduóss. Í gærkvöldi var látið til skarar skríða og húsleit framkvæmd. Á vettvangi var einn maður handtekinn sem var þar staddur við vökvun. 

Lögregla segir að ræktunin hafi verið mjög fullkomin og þannig hönnuð að ekki þurfti að koma á sveitabæinn nema á einhverra daga fresti og kanna með ástand ræktunarinnar. Að öðru leyti var hún alveg sjálfvirk.

Við leit í húsinu kom í ljós að á þriðja hundrað kannabisplantna voru þar á ýmsum stigum vaxtar en ríflega helmingur var kominn að uppskeru.

Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að ekki var búið að uppskera,  og segist lögreglan á Blönduósi afar stolt yfir því að hafa komið í veg fyrir að efni þessi færu í sölu.

Maðurinn sem var handtekinn, hefur viðurkennt aðild sína að málinu og að hann hafi verið einn að verki. Maðurinn var látinn laus nú undir kvöld. Lögregla segir að aðkomumann á þrítugsaldri sé að ræða.

Við rannsókn málsins naut lögreglan á Blönduósi aðstoðar starfsmanna fíkniefnadeildar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu sem og rannsóknarlögreglumanna frá lögreglunni á Akureyri.

mbl.is

Bloggað um fréttina