Vilja hækka auðlindagjald

mbl.is/Ómar

Magma Energy, sem hyggst verða kjölfestufjárfestir í HS orku, hefur lýst yfir vilja til að taka þátt í endurskoðun á fyrirliggjandi samningi um leigu HS orku á jarðvarmaauðlindum á Reykjanesskaga. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins leggja stjórnvöld áherslu á að sú endurskoðun leiði til að leigutími verði styttur og greiðsla fyrir leiguna hækkuð.

Íslenskir ráðamenn vilja með breytingunum tryggja að meirihluti arðs af jarðvarmaauðlindum HS orku renni til opinberra aðila.

Ross Beaty, forstjóri Magma, hitti Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra öðru sinni á fundi á miðvikudag og sátu þeir þann fund einir. Þar mun Beaty hafa fallist á að endurskoðun samningsins fari fram í samræmi við niðurstöður nefndar á vegum forsætisráðuneytisins sem fjallar um leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í opinberri eigu.

Nefndin, sem Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður fer fyrir, hefur verið að störfum frá því í fyrra og átti að skila tillögum sínum 1. júní síðastliðinn. Af því varð ekki og er nú gert ráð fyrir að hún skili tillögum sínum í síðasta lagi 31. desember næstkomandi.

Samkvæmt upprunalega samkomulaginu átti HS orka að leigja nýtingu á auðlindunum næstu 65 árin með möguleika á að framlengja þá nýtingu til annarra 65 ára. Reiknað árlegt auðlindagjald vegna þessarar nýtingar, sem rennur til eigenda landanna á Reykjanesi, er samtals 72 milljónir króna vegna allrar núverandi raforkuframleiðslu HS orku, samkvæmt yfirlýsingu sem Júlíus Jónsson, forstjóri HS orku, sendi fjölmiðlum í vikunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert