Telur sig hafa misst manndóminn

Landspítali
Landspítali Ómar Óskarsson

Norskur maður ætlar í mál við Landspítalann vegna læknamistaka. Honum finnst hann hafa misst manndóminn vegna mistakanna. Þau urðu þegar átti að meðhöndla hann við þvagfærasýkingu. Maðurinn kveðst hafa verið óvinnufær frá því í september 2007, að því er vefmiðillinn VG Nett greinir frá.

Maðurinn, sem nú er 48 ára, fékk meðferð við þvagfærasýkingu á Landspítalanum 2007. Hann segir að mistök hafi verið gerð þegar settur var upp þvagleggur. Yfirlæknir á norska ríkisspítalanum segir að þvagleggurinn hafi legið vitlaust sem olli því að drep hljóp í þvagrásina. Tæp tvö ár eru síðan mistökin voru gerð og hefur maðurinn enn mikla verki eftir aðgerðina. 

Hann segir í samtali við VG Nett að þeir á Landspítalanum hafi eyðilagt líf hans. Honum rísi ekki hold nema með hjálp Viagra, getnaðarlimur hans hafi styst um þrjá sentimetra og hann verði að nota sterk verkjalyf.

Læknaskýrsla frá Landspítalanum er sögð staðfesta að limur mannsins hafi styst og sé mikið sveigður niður á við eftir mistökin. Sagt er að aðstoðarlæknir á þvagfæralækningadeild hafi gert mistökin.

Maðurinn kveðst hafa mikla verki eftir drepið og hann hafi misst getuna til að lifa eðlilegu kynlífi. Notkun sterkra lyfja í tvö ár hafi einnig eyðilagt taugar í fótum hans og hann geti varla gengið meira en 500-600 metra áður en hann gefst upp.

Mánuðum saman eftir aðgerðina gat maðurinn ekki haft eðlileg þvaglát. Þvagrásin var ónýt og var ný þvagrás grædd í hann, en hann á samt enn erfitt með þvag- og sáðlát.

Maðurinn hefur verið óvinnufær frá því í september 2007. Hann hefur notað sterk verkjastillandi lyf á borð við morfín og methadon til að lina kvalirnar. Það hefur farið illa með taugakerfið og líkamann.

Maðurinn krefst hárra skaðabóta, margra milljóna norskra króna, vegna tapaðra lífsgæða og tekjumissis. Hann hefur leitað til norska lögmannsins Edmund Asbøll sem sérhæfir sig í skaðabótamálum sjúklinga.  Asbøll segir í samtali við VG að eftir að hafa lesið málsgögn telji hann að maðurinn ætti góða möguleika fyrir norskum rétti. 

Maðurinn er sagður búa hér á landi en vera norskur ríkisborgari. Hann fékk ókeypis nokkurra tíma lögfræðiaðstoð í Noregi nýlega en verður að höfða málið hér á landi. Hann mun hafa fengið sjúkradagpeninga úr sjúkratryggingum hér og verið lýstur óvinnufær til ársins 2013. Þá mun koma fram í sjúkraskýrslu hans að hann verði að lifa við eftirköst aðgerðarinnar til æviloka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert