Samþykktu kauptilboð Magma

HS Orka
HS Orka

„Þetta er góð niðurstaða að mínu mati fyrir Orkuveituna sem félag,“ segir Guðlaugur G. Sverrisson, formaður stjórnar OR.

Meirihluti stjórnarinnar samþykkti á fundi sínum í dag kaupsamning við Magma Energy um 16,58% hlut OR og tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Orku. Sala til Magma er háð samþykki borgarráðs og borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarráða og bæjarstjórna Akraness og Borgarbyggðar.

Jafnframt samþykkti stjórnin samkomulag við Hafnarfjarðarbæ um uppgjör milli aðila vegna viðskipta þeirra með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Með samkomulaginu er endi bundinn á tæpra tveggja ára ágreining, sem hefur verið fyrir dómstólum og einnig orðið við kröfu samkeppnisyfirvalda um að OR minnkaði eignarhlut sinn í HS Orku. Ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er tekin eftir að fyrirtækið og Magma Energy gáfu ríkisstjórn Íslands frest til að kanna hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum. Nú er ljóst að af henni verður ekki.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að með samningunum sé verið að ljúka verkefni sem samkeppnisyfirvöld hafi gert Orkuveitu Reykjavíkur að skila.

„Með þessum samningum er ekki verið að einkavæða HS Orku,“ segir Guðlaugur.

„HS Orka var þegar að meirihluta í eigu einkaaðila, fyrir tilstilli annarra en Orkuveitu Reykjavíkur. Standi vilji opinberra aðila til að eignast ráðandi hlut í HS Orku, gæti enn verið tækifæri til þess,“ segir Guðlaugur.

Góð niðurstaða fyrir Orkuveituna og eigendurna

Gengi hlutabréfanna í viðskiptum OR og Magma Energy er 6,31 og samningurinn metinn á um 12 milljarða króna. 30% kaupverðsins eru greidd með reiðufé og 70% með skuldabréfi í bandaríkjadölum.

Guðlaugur G. Sverrisson segir að tilboðið sé mjög ásættanlegt.

„Það er aldrei einfalt mál að verða að selja eitthvað sem maður á, en það var sú staða sem Orkuveita Reykjavíkur var í,“ segir Guðlaugur og segir niðurstöðuna góða fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og eigendur hennar.

Orkuveita Reykjavíkur keypti 16,58% hlut í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 og skuldbatt sig jafnframt til að kaupa liðlega 15% til viðbótar af Hafnarfjarðarbæ. Við uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja í HS Veitur og HS Orku eignuðust aðilar samsvarandi hlut á báðum félögum. Ná viðskiptin við Magma til samanlagðs hlutar í HS Orku, það er orkuframleiðsluhluta fyrirtækisins, en hvorki eignarréttar á auðlindum né einkaleyfisstarfseminnar.

Ágreiningur við Hafnarfjarðarbæ leystur

Samkeppnisyfirvöld settu skorður við eignarhlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku og hefur Orkuveitan unnið að sölunni innan tiltekins frests samkeppnisyfirvalda. Vegna ákvörðunar yfirvalda hefur Orkuveita Reykjavíkur ekki talið sér heimilt að uppfylla skuldbindingu sína gagnvart Hafnarfjarðarbæ. Með því að Magma Energy kaupir einnig þann hlut, sem ágreiningur hefur verið um, skapast forsendur fyrir samkomulaginu við Hafnarfjarðarbæ. Það felur í sér að kaup OR á hlut bæjarins ganga eftir og að aðilar hafi ekki uppi frekari kröfur vegna málsins.

Ýtarleg umfjöllun um söluna

Salan á hlut OR í HS hefur fengið ýtarlega umfjöllun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Undirbúningur hennar var ræddur á fundum stjórnar 19. desember 2008 og aftur 23. janúar 2009. Frá því frestur til að skila inn tilboðum rann út hefur málið verið rætt á tveimur fundum stjórnar OR, að viðbættum fundinum í dag. 14. ágúst voru tilboð í hlut OR í HS Orku lögð fram á fundi stjórnar OR og þau kynnt ýtarlega ásamt minnisblaði um breytingar sem OR hefði hug á að ná fram við gerð endanlegs kaupsamnings við Magma Energy. Á sama fundi voru kynntar hugmyndir að lausn nærri tveggja ára ágreinings við Hafnarfjarðarbæ um hlut í HS. Nú hafa þær hugmyndir orðið grundvöllur samnings. Þann 20. ágúst var málið aftur til umræðu á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur. Þá var gerð grein fyrir ósk fjármálaráðherra um frest og lagðar fram á minnisblöðum þær upplýsingar um tilboð Magma Energy sem óskað hafði verið á fundinum 14. ágúst. Fimmtudaginn 20. ágúst var einnig gerð grein fyrir viðræðum um söluna á fundi borgarráðs Reykjavíkur.

Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur í dag var samningurinn við Magma Energy samþykktur með fjórum atkvæðum gegn tveimur og samkomulagið við Hafnarfjarðarbæ með fjórum samhljóða atkvæðum. Hvortveggja samningurinn þarf að hljóta staðfestingu þeirra sveitarfélaga sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert