Dæmdir í fangelsi vegna áforma um njósnir á Íslandi

Breskir hermenn á Íslandi í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar.
Breskir hermenn á Íslandi í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Íslendingarnir tveir, Hjalti Björnsson og Sigurður Júlíusson, sem bandarískir hermenn handtóku á Austurlandi vorið 1944 ásamt Þjóðverjanum Ernst Fresenius vegna áforma um að njósna fyrir Þjóðverja, voru dæmdir í fangelsi á Íslandi eftir vist í fangabúðum í Bretlandi. Birt hefur verið bresk leyniskýrsla þar sem fjallað var um handtöku mannanna hér á landi.

„Bandamenn kröfðust þess að höfðað yrði mál gegn þeim á Íslandi,“ segir Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sem skrifaði bókina Með kveðju frá St. Bernharðshundinum Halldóri ásamt séra Önundi Björnssyni. Bókin, sem kom út 1990, fjallar um íslenska njósnara á vegum þýsku leyniþjónustunnar.

„Heiti bókarinnar var leyniorðið sem þeir áttu að gefa upp þegar kæmu til Íslands og hefðu samband við Guðbrand Hlíðar, dýralækni á Akureyri. En sá merki hundur, St. Bernharðshundurinn, var í eigu þýska njósnaforingjans dr. Lotz sem hafði fengið þessa menn í þennan njósnaleiðangur,“ segir Ásgeir.

Njósnir og gagnnjósnir 

Ásgeir getur þess að áður hafi komið þeir Ib Árnason Riis, sem nú býr í Kaliforníu, og Pétur Thomsen ljósmyndari. Á eftir Pétri komu Magnús Guðbjörnsson og Sverrir Matthíasson. Einnig Lárus Þorsteinsson, seinna skipherra hjá Landhelgisgæslunni, og Einar Sigvaldason. Höfðað var mál gegn þeim öllum nema gagnnjósnurunum tveimur, Ib og Pétri.

„Ib kom á þýskum kafbáti 1942 og var settur í land á Langanesi. Pétur kom 1943 og var líka settur í land á Langanesi. Þeir störfuðu sem gagnnjósnarar fyrir bresku leyniþjónustuna. Þeir komu þeirri hugmynd inn hjá Þjóðverjum að gerð yrði árás frá Íslandi á Noreg og þremenningarnir sem handteknir voru í maí 1944 áttu að njósna fyrir Þjóðverja um þá áætlun,“ segir Ásgeir.

Ásgeir skrifaði bókina Gagnnjósnari Breta á Íslandi um Ib Árnason Riis og kom hún út 1991. Þar er Pétur Thomsen einnig nefndur.

Úr ylrækt í njósnir

Ernst Fresenius var búfræðingur og garðyrkjumaður sem lagði stund á ylrækt á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hann var frumkvöðull í ylrækt á nesinu og ræktaði þar ótrúlegan fjölda nytja- og skrautjurta. Hann kom fyrst við sögu á Íslandi 1926 þegar hann gerðist vinnumaður hjá séra Jóni Johannessen, sóknarpresti á Breiðabólsstað.

Fresenius kom aftur til Íslands að lokinni vistinni í fangabúðunum í Bretlandi og var í febrúar 1946 dæmdur í átta mánaða fangelsi. Íslendingarnir tveir voru einnig dæmdir í nokkurra mánaða fangelsi.

„Þeir þurftu þó ekki að sitja inni þar sem þeir þeir voru taldir hafa tekið út refsinguna með vistinni í fangabúðunum í Bretlandi,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka