„Menn fara best með eigið fé“

„Menn fara yfirleitt best með eigið fé og því er það farsælast fyrir launafólk í landinu að það sjálft ákveði alfarið hverjir stýra sjóðum þess,“ segir í ályktun stjórnar Sjómannafélags Íslands.

Í ályktun stjórnar Sjómannafélags Íslands eru önnur stéttarfélög í landinu hvött til að endurskoða þátttöku atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða. Við blasi að fjármunir flestra lífeyrissjóða séu eign launafólks en ekki atvinnurekenda.

„Af þeim sökum telur Sjómannafélag Íslands fulltrúa atvinnurekenda ekkert erindi eiga í stjórnir þessara lífeyrissjóða. Fulltrúar launafólks eru að mati sjómannafélagsins best til þess fallnir að fjárfesta og varðveita fjármuni sjóðanna enda bera þeir augljóslega hag launafólks fyrir brjósti. Ekki verður séð að hagsmunir atvinnurekenda séu þeir sömu og sjóðsfélaga enda eru fjármunir sjóðanna ekki í eigu þeirra fyrrnefndu,“ segir í ályktuninni.

Þá varar Sjómannafélagið við hugmyndum um stofnun sérstaks fjárfestingasjóðs á vegum lífeyrissjóðanna í landinu sem ætlað er að fjárfesta fyrir hönd lífeyrissjóðanna í framtíðinni. Verði af stofnun slíks fjárfestingasjóðs telur Sjómannafélag Íslands afar mikilvægt að haldið verði föstum tökum utan um fjárfestingar sjóðsins og að góðar tryggingar séu fyrir öllum útlánum hans. Saga undanfarinna missera hafi sýnt að alls ekki hafi verið nógu vel staðið að rekstri og fjárfestingum fjölmargra lífeyrissjóða sem hafi leitt til tugmilljarða tjóns fyrir launþega í landinu.

Loks telur Sjómannafélag Íslands æskilegt að sömu kröfur séu gerðar til stjórnenda lífeyrissjóða og annarra fyrirtækja. Ef illa gangi séu það stjórnendur sem beri ábyrgðina.

„Yfirmenn lífeyrissjóða þiggja háar greiðslur fyrir störf sín fyrir sjóðina og eru þær margfalt hærri en meðallaun sjóðsfélaganna. Það ætti því að vera skýr krafa sjóðsfélaga að stjórnendur sjóðanna víki frá í þeim tilvikum þar sem miklir fjármunir hafa tapast og feli hæfari aðilum að halda um stjórnartaumana. Sjómannafélagið bendir á að menn fara yfirleitt best með eigið fé og því sé það farsælast fyrir launafólk í landinu að það sjálft ákveði alfarið hverjir stýra sjóðum þeirra,“segir í ályktun stjórnar Sjómannafélags Íslands.

Vefur Sjómannafélags Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina