„Ekkert óeðlilegt við greiðslur LV“

„Við vísum því algjörlega á bug að það sé eitt eða neitt óeðlilegt við þessar greiðslur. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum þá ber framkvæmdaraðila, líkt og Landsvirkjun er í þessu tilfelli, að standa straum af kostnaði sveitarfélags við breytingar á skipulagi,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar um greiðslur til Skeiða- og Gnúpverjahrepps í tengslum við skipulagsvinnu vegna virkjunaráforma.

Landsvirkjun áformar að byggja þrjár virkjanir í Neðri Þjórsá. Tvær þeirra, Hvamms- og Holtavirkjun, eiga að vera í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Breyta þarf deiliskipulagi vegna áformanna sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur nú samþykkt. Virkjanirnar hafa verið mjög umdeildar á Suðurlandi.

Sigurður Jónsson, fyrrverandi oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sté fram í gær í fréttum Stöðvar 2 og sagði sveitarstjórnarmenn hafa þegið greiðslur frá Landsvirkjun fyrir óbókaða fundi. Hver um sig hefði fengið 200 þúsund króna greiðslu frá LV fyrir að sitja tíu fundi. Þá hefði LV greitt hreppnum annan kostnað, samtals um ellefu milljónir króna, m.a. vegna lögfræðikostnaðar.

Upplýsingafulltrúi LV segir að hreppnum hafi samtals verið greiddar 11.004.210 krónur vegna vinnu árin 2006, 2007 og 2008.

„Þarna komum við inn með áform sem valda því að sveitarfélagið þarf að leggja í vinnu sem er langt umfram það sem á við um almenna stjórnsýslu hjá þeim. Við erum að greiða fyrir sérstaka fundi sem við boðum til og fyrir sérstaka vinnu sem inna þarf af hendi. Það er eðlilegt að við greiðum þann kostnað sem hlýst af slíkri vinnu, umfram almenna stjórnsýslu. Þetta er gert á grundvelli ákveðins rammasamnings við viðkomandi sveitarfélag, sem gefur okkur færi á að sjá umfangið. Sveitarfélagið gerir að sjálfsögðu grein fyrir þeim kostnaði sem af vinnunni hlýst. Það er hins vegar ekki rétt að Landsvirkjun hafi greitt beint til einstakra sveitarstjórnarmanna. Greiðslurnar voru inntar af hendi til sveitarstjórnar á grundvelli rammasamnings,“ segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi LV.

Í 23. grein skipulags- og byggingarlaga segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Landeiganda eða framkvæmdaraðila sé þó heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.

„Þetta hefur verið með svipuðum hætti þar sem við höfum staðið í framkvæmdum. Það má líka benda á stjórnsýslustofnanir eins og heilbrigðiseftirlit og vinnueftirlit þegar stórframkvæmdir eru í gangi, þá koma til verulegar greiðslur fyrir það eftirlit sem viðkomandi stofnanir annast,“ segir Þorsteinn Hilmarsson,

Hann bendir á virkjunarframkvæmdir á Austurlandi í því sambandi og Blönduvirkjun, þó annar lagarammi hafi gilt þá. Greiðsla vegna virkjunaráforma á Suðurlandi og vinnu þeim tengda sé því ekkert óeðlileg.

„Við höfum ekkert að fela, það er sjálfsagt að fólk ræði um þetta en ég held að þarna sé mikill misskilningur á ferðinni,“ segir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert