Byrjað að bólusetja í október

Byrjað verður að bólusetja gegn svínaflensu hér á landi í …
Byrjað verður að bólusetja gegn svínaflensu hér á landi í byrjun október. Reuters

Stefnt er að því að byrjað verði að bólusetja gegn svínaflensunni (H1N1) hér á landi í byrjun október en von er á bóluefninu til landsins um næstu mánaðamót. Gert er ráð fyrir að bóluefnið kosti um 370 miljónir króna en það fer þó eftir gengi krónunnar.   

Fyrsti markhópurinn telur um sjötíu þúsund manns en í honum eru þungaðar konur, heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingar með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarmenn. Þetta kom fram á blaðamannafundi sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. 

Einungis verður bólusett á heilsugæslustöðvum, Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri. Er gert ráð fyrir því að fyrsti markhópur mæti í bólusetningu fyrstu þrjár vikurnar í október.  Hann þarf síðan að bólusetja aftur og verður það gert áður en bólusetninga annars markhóps hefst. Þó er hvatt til þess að þeir sem tilheyri markhópi tvö gefi sig fram til bólusetningar næstu þrjár vikur eftir fyrstu bólusetningu þ.e. í lok október og byrjum nóvember. Í þeim hóp eru börn frá sex mánaða aldri til átján ára. Betur á eftir að skilgreina hverjir fleiri falla í þann hóp.

Stjórnvöld hafa keypt 300.000 skammta af bóluefni sem koma hingað í fjórum sendingum, hinni síðustu um áramót. Fyrstu tvær sendingarnar munu fara í bólusetningu fyrsta markhóps og hefur hann verið skilgreindur með tilliti til þess hversu mikið magn bóluefnis berst til landsins í þeim sendingum.

Fram kom á fundinum í dag að svo virðist sem væg veikindi og óþægindi fylgi oft bólusetningu með nýja bóluefninu en að þau einkenni virðistsvipuð þeim einkennum sem fylgi bólusetningu með öðrum bólefnum gegn flensu. Það sé því alltaf matsatriði hvort bólusetja eigi viðkvæma  hópa eins og þungaðar konur en að það sem flensan virðist leggjast þungt á þær sé það talið ráðlegt í þessu tilfelli. Ekki er gert ráð fyrir umfangsmiklum vinnuforföllum einstaklinga úr markhópi I vegna bólusetningarinnar.    

Í morgun var símafundur almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis með sóttvarnalæknum og lögreglustjórum um land allt þar sem fjallað var um stöðuna í inflúensumálinu, einkum um framkvæmd bólusetningar næstu mánuði. Þetta er annar símafundurinn af þessu tagi og ætlunin er að þeir verði reglulegur viðburður á hverjum föstudagsmorgni, samkvæmt upplýsingum sem kynntar voru á blaðamannafundi í dag.

Alls hafa 173 tilfelli af inflúensu A (H1N1) verið staðfest með sýnatöku hérlendis. Tilfellunum hefur farið fækkandi og skýringin kann m.a. að vera sú að sýnatökum fækkar. Inflúensan hefur verið staðfest alls staðar á landinu nema í Vestmannaeyjum.

Bólusetningu vegna hefðbundinnar flensu jafnvel frestað

Ljóst er að gríðarlegt álag verður á heilsugæslu og heilbrigðiskerfi landsins vegna bólusetningarinnar. Gert er ráð fyrir allt að 400.000 bólusetningum á landinu til áramóta vegna inflúensu A (H1N1) og „venjulegrar og árlegrar inflúensu“, samkvæmt minnisblaði frá fundinum í morgun.

Bóluefni vegna venjulegrar inflúensu er væntanlegt til landsins í haust, eins og venjulega á þessum árstíma. Hugsanlegt er að þeirri bólusetningu verði frestað í fáeinar vikur til leggja ekki meira á heilbrigðiskerfið á stuttum tíma en fyrirsjáanlegt er vegna inflúensunnar A (H1N1).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert