Er lausnin fólgin í fasteignafélögum?

Komist fólk í greiðsluþrot þarf að tryggja að það missi ekki íbúðarhúsnæði sitt þótt komi til nauðungarsölu. Það má gera með því að koma á fót opinberum fasteignafélögum sem geta yfirtekið skuldsettar eignir, skrifar framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, Skúli Thoroddsen á vef sambandsins. Hann segir björgunaraðgerðir í þágu heimilanna þola enga bið.

Fólk ræður ekki við afborganir af lánum

„Heimilin hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum í kjölfar bankahrunsins. Kjaraskerðingin sem orðin er vegna gengishrunsins gerir það að verkum að fólk ræður ekki við afborganir af verðtryggðum og gengistryggðum lánum. Samdráttur í tekjum, samfara aukinni greiðslubyrði lána, setur sjálfan grundvöll hverrar fjölskyldu, heimilið, í hættu.

Ef atvinnulífið getur ekki bætt launafólki kjaraskerðinguna með umtalsverðum launahækkunum hlýtur það að vera meginkrafa launafólks að enginn sé borinn út úr sínu húsnæði," skrifar Skúli.

Fólki skorið úr skuldasnörunni

Hann sér fyrir sér að fasteignafélögin, hugsanlega með aðkomu lífeyrissjóða eða annarra fjárfesta, horfi til langtímafjárfestingar þannig að kaupverð eignanna við nauðungarsölu verði greitt niður af fasteignafélögunum á 40-90 árum.

„Þannig er fólki forðað frá gjaldþroti vegna íbúðaskulda og skorið úr skuldasnörunni um leið og fjárfestingin er öxluð af félagslegri ábyrgð til lengri tíma.

Fasteignafélögunum verði svo gert skylt með lögum að tryggja fólki sem þannig missir eignarétt að húsnæði sínu rétt til áframhaldandi búsetu þar gegn sanngjarnri leigu sem ekki nemur hærri upphæð en greiðslubyrði húsnæðislána var fyrir bankahrunið.

Tryggja verður þessu fólki búseturétt til lengri tíma með kaupréttarákvæðum sem geri því kleift að endurkaupa eignir sínar, ef það svo kýs síðar þegar batnar í ári. Fasteignafélögin geta einnig þjónað þeim tilgangi að tryggja ungu fólki aukin tækifæri til að stofna heimili í gegnum félagslegt húsnæðiskerfi á viðráðanlegum kjörum," skrifar Skúli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert