Ekki ályktað að Gunnar ætti að fara

Selfosskirkja.
Selfosskirkja.

Þrír prestar hafa sent frá sér tilkynningu þar sem bent er á að prestastefna hafi fyrr á þessu ári ekki ályktað að séra Gunnar Björnsson eigi að hverfa úr embætti sóknarprests á Selfossi.

Segja prestarnir þrír, þau Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Jón Ragnarsson og Gylfi Jónsson, að nokkurs misskilinings virðist gæta í fréttum fjölmiðla undarnfarið varðandi ályktun prestastefnunnar 2009. Það hafi alls ekki verið skilningur allra presta sem sátu lokafund stefnunnar, en frá honum kom ályktunin, að þannig ætti að skilja ályktun prestastefnunnar.

Rétt sé, að tillaga, sem ekki varð öðruvísi skilin en sem hvatning til þess að prestinum yrði gert að hverfa frá störfum, hafi komið fram undir liðnum „önnur mál" í lok síðasta fundar stefnunnar.  Miðnefnd hafi einnig lagt fram eigin og mildari tillögu samhliða. Báðar tillögurnar hafi fengið hörð viðbrögð og niðurstaðan orðið eftirfarandi málamiðlun:

Prestastefna haldin í Kópavogskirkju 28.-30. apríl 2009 hvetur biskup til þess að nýta þær leiðir sem hann hefur til lausnar í málefnum Selfosssafnaðar.

Þessi tillaga var samþykkt samhljóða, þ.e. án mótatkvæða.

„Það er því mjög einhliða túlkun á ályktuninni, og ekki fyllilega sannleikanum samkvæm, að halda því fram að prestastefna hafi álykað að sr. Gunnar Björnsson skuli ekki taka aftur við embætti sínu sem sóknarprestur á Selfossi.  Einnig er undarlegt að heyra talað um prestskap hans þar í þátíð, þar sem hann er löglega skipaður sóknarprestur í Selfossprestakalli, en hefur verið í leyfi á annað ár vegna málarekstursins," segir í tilkynningu prestanna þriggja. 

mbl.is