Kæru á hendur Agnesi vísað frá

Agnes Bragadóttir.
Agnes Bragadóttir.

Settur ríkissaksóknari í málum vegna bankahrunsins hefur vísað frá kæru á hendur Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, fyrir meint brot á lögum um bankaleynd.  Fjórir aðrir blaðamenn voru kærðir fyrir samskonar brot.

„Ég fagna þessari niðurstöðu og tel að snaggaraleg vinnubrögð nýs setts ríkissaksóknara, Björns L. Bergssonar, gefi fyrirheit um önnur og betri vinnubrögð en Fjármálaeftirlitið hefur ástundað allt of lengi," sagði Agnes Bragadóttir við mbl.is.  

Í bréfi, sem Björn L. Bergsson hefur sent Fjármálaeftirlitinu vegna máls Agnesar, segir að Fjármálaeftirlitið hafi í febrúar komið á framfæri við sérstakan saksóknara ábendingu um hugsanleg brot á bankaleynd. Um var að ræða þrjú mál, þar á meðal mál Agnesar, sem var vegna birtingar á upplýsingum úr lánabók Glitnis og lánveitingar helstu stjórnenda og hluthafa bankans til valina fjárfesta með það fyrir augum að hækka gengi hlutabréfa FL Group og Glitnis. Grein Agnesar birtist 23. nóvember sl. í Morgunblaðinu.

Sérstakur saksóknari sendi Fjármálaeftirlitinu bréf 18. febrúar þar sem sagði að embættið myndi ekki hafast frekar að í málinu að svo stöddu. Tekið var fram að þessa ákvörðun mætti kæra til embættis ríkissaksóknara innan mánaðar. Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, hafi síðan greint frá því að ákvörðunin hafi ekki verið kærð til embættis hans innan þessa frests.

Þá kemur fram í bréfi Björns, að mánaðarfresturinn hafi verið löngu liðinn þegar kæra Fjármálaeftirlitsins var send ríkissaksóknara þann 14. ágúst. Engin ný gögn í skilningi sakamálalaga eða nýjar upplýsingar hafi fylgt kæru Fjármálaeftirlitsins á hendur Agnesi. Því sé ekkert tilefni til endurupptöku málsins og sé kærunni vísað frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert