Samruni Geysis Green og HS Orku samþykktur

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna samruna Geysis Green Energy og HS Orku með ákveðnum skilyrðum. Meðal annars verður Geysir Green Energy að tryggja að rekstrarlegur og stjórnunarlegur aðskilnaður sé milli Jarðborana, dótturfélags Geysis Green, annars vegar og HS Orku hins vegar.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir, að kaup Geysis Green Energy á 34% hlut í HS Orku, þannig að heildarhlutur félagsins nemur 66% hlutafjár, feli í sér samruna. Telur stofnunin ekki þörf á að ógilda samrunann að uppfylltum skilyrðunum.

Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins segir, að fram hafi komið að kanadíska jarðvarmafyrirtækið, Magma Energy sé að kaupa hlutafé í HS orku af Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá samrunaaðilum hafi það engin áhrif yfirráð félagsins yfir HS orku enda fari Geysir Green með meirihluta hlutafjár félagsins.

Meðal skilyrðanna, sem Samkeppniseftirlitið setur fyrir samrunanum, er að Jarðboranir og HS Orka skuli rekin sem tveir lögaðilar og sömu einstaklingar megi ekki sitja í stjórn Jarðborana og HS orku. Hið sama gildir um tengda aðila þeirra.

Geysir Green Energy skal tryggja að HS Orka, dótturfélög og önnur tengd félög njóti ekki betri viðskiptakjara hjá Jarðborunum en keppinautar félaganna gera og að viðskiptavinum Jarðborana sé ekki mismunað á annan hátt, t.d. með ólíkri upplýsingamiðlun og ómálefnalegum samningsákvæðum og -kjörum. Skal farið með viðskipti Jarðborana og HS Orku líkt og viðskipti á milli ótengdra aðila.

Geysir Green Energy skal tryggja að engar upplýsingar um starfsemi HS Orku eða Jarðborana berist á milli félaganna aðrar en þær sem nauðsyn ber til vegna beinna viðskipta félaganna. Skal þess jafnframt gætt að upplýsingum sem Jarðborunum kunna að verða látnar í té af keppinautum HS Orku sé haldið leyndum fyrir Geysi Green Energy og HS orku.

Stjórnarmenn og starfsmenn Geysir Green Energy og Jarðboranna skulu undirrita yfirlýsingu um þagnarskyldu og trúnað þar að lútandi. Afrit þessara yfirlýsinga skulu send Samkeppniseftirlitinu.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert