Þeir eyðilögðu kapítalismann

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði.
Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. mbl.is/Golli

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, talar ekki vel um nýfrjálshyggjuna. Hann gagnrýnir fjármálafyrirtækin og öfgarnar, sem leiddu til yfirstandandi fjármálakreppu í heiminum. Hann heimsótti Ísland í upphafi aldarinnar og komu fremur fáir að hlýða á hann. Þegar hann talaði á fundi í Öskju á mánudag var fullt úr úr dyrum og komust færri að en vildu. Hefðu menn lagt eyrun við ráðum Stiglitz þá, hefði mátt afstýra ýmsu. Nú eru að minnsta kosti margir að hlusta. Hann ræddi bæði við þingmenn og ráðherra í byrjun vikunnar og kveðst reiðubúinn að veita ráð, en ekki vera ráðgjafi.

Áherslan á efnisleg gæði

Stiglitz segir að ekki megi gleyma því að hagkerfið sé ekki markmið í sjálfu sér, heldur leiðin til að skapa það þjóðfélag, sem menn kjósi sér.

„Augljóslega er til fólk sem leggur meiri áherslu á efnislega hluti og það myndi vilja að samfélagið endurspeglaði slíka efnishyggju,“ segir hann. „Ég held að það eigi hins vegar ekki við um meirihluta fólks. Þetta er fólk, sem hefur glatað áttum og heldur að efnislegir hlutir séu allt. Ein fullyrðingin er sú að þessi minnihluti, sem heldur að það sé markmið í sjálfu sér að safna hlutum, hafi ákveðið hverjar áherslurnar væru. Ég held hins vegar að nær lagi sé að segja að sumir í það minnsta noti þessar áherslur sjálfum sér til framdráttar, til að auka efnislega velferð sína. Þannig er til dæmis sagt að einkavæðing leiði til aukinnar skilvirkni, en að auki fær viðkomandi tækifæri til að komast yfir tiltekin gæði. Ekki er gefið hvort viðkomandi trúi því í raun að skilvirknin verði meiri, en hann veit að hann mun eignast meiri gæði.“

Er þá skoðun Stiglitz að umræðan um einkavæðingu sé blekking?

„Ég held að í versta tilfelli hafi nokkrir trúað því, en þeir fóru ekki mjög djúpt,“ segir Stiglitz. „Þetta var ekki fólk, sem lagðist í djúpa greiningu. Þær athugasemdir, sem ég geri, hafa verið kunnar lengi. Herbert Simon, sem fékk Nóbelsverðlaunin fyrir um 25 árum, benti á að í flestum nútímafyrirtækjum væru flestir einstaklingar starfsmenn og það sama ætti við hjá ríkisfyrirtækjum. Stofnanir ríkisins gætu verið með góðar aðferðir til hvatningar eða slæmar. Það sama ætti við um einkafyrirtæki. Hann benti á að það gæti verið að þegar á heildina væri litið væri annað hvort – einkageirinn eða hið opinbera – betra, en það gæti ekki verið viðtekin hagfræðikenning. Ef horft er á reynsluna eru sumar ríkisstofnanir mjög skilvirkar, til dæmis stjórn ellilífeyrismála í Bandaríkjunum, sem er skilvirkari en nokkurt einkarekið tryggingafyrirtæki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »