Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala

Hópur Japana hefur lýst yfir áhuga á að fjárfesta hér á landi fyrir 1 milljarð dala, jafnvirði 126 milljarða króna, að því er kom fram í fréttum Sjónvarpsins. Þeir hafa lýst þessum áhuga við íslenska fjármálaráðuneytið en engin svör fengið.

Að sögn Sjónvarpsins komu mennirnir til landsins í nóvember í fyrra og lýstu þá áhuga á að kaupa hruninn banka, endurreisa hann og reisa jarðvarmaver í kjölfarið. Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, sagðist hafa farið með mönnunum til fjármálaráðherra þar sem þeir lögðu fram bréf. Engin viðbrögð hafi hins vegar komið frá stjórnvöldum.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist ekki kannast við málið. Það hefði hugsanlega dottið milli skips og bryggju þar sem bæði hefði verið skipt um ráðherra og ráðuneytisstjóra frá því í nóvember.

mbl.is