Hrein og ómenguð nautasteik

Bændurnir á Hálsi í Kjós reka verslun í hlaðvarpanum með heimaafurðir. Meðal þess sem er á boðstólum er hreint „ómengað nautakjöt,” þar sem engum aukaefnum er blandað saman við framleiðsluna. 

Það hefur verið brjálað að gera í versluninni síðan hún opnaði. Þórarinn Jónsson bóndi segir að neytandinn sé að fá það sem hann borgi fyrir. Neytandinn eigi að fá hundrað prósent nautakjöt, hreina og ómengaða vöru. Hann segir engum efnum blandað í kjötið en víða annars staðar, sé þyngdaraukandi, vatnsbindandi efnum blandað saman. Þá sé opinbert leyndarmál að það sé bætt hrossakjöti, svínafitu, kartöflumjöli og öðru því sem mönnum detti í hug, saman við nautahakk.

Verslunin sem heitir Matarbúrið er einungis opin þrjá daga í viku. Hún opnaði um páskana, síðan þá hefur verið brjálað að gera og  bændurnir þurfa tíma til að sinna búskap og matargerð. Engu að síður er hægt að hringja og panta afgreiðslu eftir samkomulagi. Í versluninni fast einnig kæfur, hlaup og ýmsir nýstárlegir réttir úr afurðum bæjarins eða náttúrunnar í kring, til að mynda er hægt að rekast á pesto úr hundasúrum ef maður er heppinn.

Það rýkur úr strompi bakatil á þaki verslunarhússins og þaðan leggur þægilega reykjarlykt. Hinum megin í húsinu sem er þó ekki stórt í sniðum er Slawomir Wikowsky sem er í daglegu tali kallaður Svavar að reykja kjöt og hræra í pylsur fyrir alla þá Pólverja sem eru búsettir á Íslandi en vilja mat frá sínum heimahögum.

Það er hinsvegar ekkert frá Svavari í búðinni því hann hefur ekki við að matreiða fyrir Pólverjana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert