Rannsaka verði fullyrðingar um aukaefni í nautahakki

Neytendasamtökin segja, að Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verði að kanna þegar í stað fullyrðingar Þórarins Jónssonar, bónda á Hálsi í Kjós, um að víða sé þyngdaraukandi og vatnsbindandi efnum blandað í nautahakk.

Þórarinn sagði við Mbl Sjónvarp í dag, að þyngdaraukandi, vatnsbindandi efnum sé blandað í nautahakk. Þá sé það opinbert leyndarmál að það sé bætt hrossakjöti, svínafitu, kartöflumjöli og öðru því sem mönnum detti í hug, saman við nautahakk.

Neytendasamtökin segja, að sé þetta rétt séu viðkomandi framleiðendur einfaldlega að brjóta lög og um leið að brjóta mjög alvarlega á rétti neytenda. Ætla megi að menn gangi ekki fram með svo alvarlegar ásakanir eins og Þórarinn geri nema hann viti meira en almenningur veit.

„Er það skoðun Neytendasamtakanna að hér sé um það alvarlegar fullyrðingar að ræða að eðlilegt sé að Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga kanni þetta þegar í stað. Það er með öllu óþolandi ef verið er svindla á neytendum eins og Þórarinn fullyrðir," segir á vef samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert