Byggingaréttur seldur á ný

Friðrik Tryggvason

Þær lóðir sem Reykjavíkurborg hefur auglýst til sölu í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás eru allt lóðir sem hefur verið skilað aftur til borgarinnar. Alls er um 72 lóðir að ræða fyrir 324 íbúðir í Úlfarsárdal og 48 lóðir fyrir 74 íbúðir við Reynisvatnsás. Um fjórar fjölbýlishúsalóðir eru boðnar út í Úlfarsárdalnum fyrir 216 íbúðir, að sögn Ágústs Jónssonar, skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar.

Ágúst segist ekki eiga von á því að eftirspurnin verði jafn mikil nú eftir lóðum og var fyrir nokkrum árum enda ástandið í efnahagslífinu gjörólíkt nú. Eitthvað hafi samt verið um að fólk hafi hringt og lýst yfir áhuga á að bjóða í lóðir.

Umsóknarfrestur um lóðirnar er til 25. september og segir Ágúst að svipað ferli verði viðhaft við lóðaúthlutunina nú og áður. Það er dregið verður úr þeim umsóknum sem hafa borist. Skiptir þá ekki máli hvort umsóknirnar séu fleiri en lóðirnar eða ekki.

„Þá velja menn sér lóðir eftir þeirri röð sem þeir eru dregnir út. Ef eftirspurnin verður minni en framboðið, þannig að eftir standi lóðir eftir útboðið, þá er gert ráð fyrir því að þær verði listaðar upp og menn geti komið og sótt um tiltekna lóð."

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að kaupendur byggingarréttar, þ.e. lóðarhafar, geta greitt 85% af verði byggingarréttarins með 8 ára verðtryggðu veðskuldabréfi, sem ber 4% fasta vexti.

Framkvæmdafrestir hafa verið lengdir og er nú t.d. gerð krafa um að hús sé orðið fokhelt innan fjögurra ára í stað tveggja ára áður.

Segir Ágúst að allir framkvæmdafrestir hafi verið lengdir um tvö ár og gildir það um allar lóðir í hverfunum.   

Hann segir að borgin hafi haldið uppbyggingu áfram í hverfunum þrátt fyrir það frost sem hafi myndast í fyrrahaust á byggingamarkaði. Unnið sé að byggingu skóla í Úlfarsárdal og í Norðlingaholti. „En auðvitað er ekki hægt að ganga frá öllu sem ætlunin var að ganga frá þegar hægist jafn mikið á uppbyggingunni og raun ber vitni," segir Ágúst og tekur sem dæmi að ekki sé hægt að steypa gangstéttir því þegar byggingaframkvæmdir hefjast þá brotna þær. „Hins vegar hafi verið gert heilmikið átak í Úlfársdalshverfinu í sumar og í góðri samvinnu við íbúa í hverfinu."

Lóðavefur Reykjavíkurborgar

Yfirlitsmynd af Úlfársdal
Yfirlitsmynd af Úlfársdal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka