Sammála ákvörðun Magnúsar

Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson.

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segist sammála ákvörðun Magnúsar Árna Skúlasonar, sem situr í bankaráði Seðlabankans fyrir hönd flokksins, að fara fram á það við Alþingi að honum verði veitt lausn frá störfum. Birkir segir frumkvæðið hafa komið frá Magnúsi sjálfum en eðlilega hafi málin verið rædd meðal þingmanna flokksins.

„Fréttir dagsins hafa óneitanlega kastað ákveðinni rýrð á trúverðugleikann og það verður að ríkja algjört traust til grundvallarstofnunar líkt og Seðlabanka Íslands og stjórnar hans,“ segir Birkir Jón. „Magnús komst að þessari niðurstöðu og ég er sammála hans ákvörðun.“

Birkir segir atburðarrásina hafa verið afar hraða og þar sem þingmenn Framsóknarflokksins eru víðs vegar á landinu og jafnvel ekki á því voru engin formleg fundarhöld um málið. „En eðlilega hafa verið samskipti innan þingflokksins um þetta mál, þar sem Magnús er skipaður af Alþingi. En það var enginn formlegur þingflokksfundur og því engin einstök niðurstaða. Magnús átti frumkvæðið að þessari ákvörðun.“

Birkir Jón segist sjálfur ekki hafa gefist ráðrúm til að kynna sér málið í hörgul og getur því ekki tjáð sig efnislega um frétt Morgunblaðsins. Hann segist ennfremur ekki hafa vitað af viðskiptum Magnúsar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert